Voru eins og dýr í vörninni

„Það gekk allt upp hjá okkur í varnarleiknum að þessu sinni. Stelpurnar voru eins og dýr í vörninni," sagði Íris Björk Símonardóttir, markvörður Gróttu, sem varði að minnsta kosti 31 skot í sigurleik liðsins á Fram, 21:16, í þriðju og síðustu viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmót kvenna í handknattleik. 

„Þegar vörnin er eins og hún var í núna þá hörfa sóknamennirnir lengra frá vörninni sem gerir vinnu markvarðarins auðveldari," sagði Íris Björk. „Þetta var með því allra besta sem við höfum sýnt á keppnistímabilinu. Þar af leiðandi er ég mjög ánægð með leikinn."

Spurð hvort þetta hafi ekki verið einn allra besti leikur hennar á ferlinum sagði Íris væntanlega svo hafa verið. „Það gekk bara allt upp að þessu sinni. Ég hef setið yfir leikjum með Kára þjálfara og Jóa Lange til þess að búa mig undir leikina og það gekk allt upp. Ég veit að það er klisja en þegar vörnin er eins og hún var að þessu sinni þá hjálpar það mjög vel."

Nú gefst Gróttu nokkurra daga frí frá kappleikjum áður rimman um Íslandsmeistaratitilinn hefst við annað hvort Hauka eða Stjörnuna. Íris sagði næstu daga vera kærkomna til þess að safna kröftum fyrir síðustu leikina.

Nánar er rætt við Írisi Björk á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert