Slógum strax úr þeim vígtennurnar

„Við komum hrikalega klárir í verkefnið eins og markmiðið var. Okkur tókst að slá vígtennurnar úr þeim strax í byrjun,“ sagði Hlynur Morthens, markvörður Vals, eftir sigur liðsins á Aftureldingu, 30:24, í þriðju rimmu þeirra í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Valshöllinni í kvöld.

Valur tók öll völd á leikvellinum strax í byrjun. Leikmenn Aftureldingar vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið.  „Vörnin  var geggjuð og sóknarleikurinn gekk mjög vel. Afturelding átti engin svör við okkur að þessu sinni,“ sagði Hlynur. „Við bjuggum okkur undir sömu baráttu að þessu sinni eins var í tveimur fyrstu leikjunum. Nú þarf hausinn að vera í lagi þegar líkaminn fer að gefa eftir,“ segir Hlynur sem viðurkennir að þreyta sér komin í menn en næsti leikur verður aðeins eftir tvo daga.

„Nú verður maður í ísbaði næsta sólarhringinn til þess að vera klár í leikinn á laugardaginn auk kjúklings og pasta,“ sagði Hlynur léttur að vanda.

Þar með tók Valur forystu í rimmunni, hefur tvo vinninga gegn einum Aftureldingar. Næsti leikur liðanna verður að Varmá á laugardaginn.

Nánar er rætt við Hlyn á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert