Valsmenn skelltu Aftureldingu

Geir Guðmundsson reynir skot að marki Aftureldingar í leiknum í …
Geir Guðmundsson reynir skot að marki Aftureldingar í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur vann afar sannfærandi sigur á máttlitlum leikmönnum Aftureldingar, 30:24, í þriðju viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Valshöllinni í kvöld. Valur er þar með kominn yfir í rimmu liðanna, með tvo vinninga gegn einum Aftureldingarmanna. Liðin mætast í fjórða sinn að Varmá á laugardaginn og þá getur Valur tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins með sigri í þeim leik.

Valur með yfirburði í leiknum lengst af og hafði m.a. níu marka forskot í hálfleik, 18:9.

Það var aðeins eitt lið á vellinum í fyrri hálfleik, lið heimamanna í Val. Valsmenn tóku öll völd á vellinum strax. Leikmenn Aftureldingar virtust hikandi og hræddir og voru ekki með á nótunum, hvorki í vörn né sókn. Eftir stundarfjórðungsleik var staðan, 9:4, og það seig bara á ógæfuhliðina fyrir Mosfellinga. Þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks var munurinn orðinn 10 mörk, 17:7. Segja má að það hafi aðeins verið eitt lið á vellinum. Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, tók tvö leikhlé í fyrri hálfleik. Í því seinni talaði hann svo hátt yfir hausamótunum á lærisveinum sínum að hann yfirgnæfði tónlistina í salnum. Örlítið líf kom í Mosfellinga eftir leikhléið en staðan var jafn vonlaus sem fyrr þegar fyrri hálfleik lauk. Þá munaði níu mörkum, 18:9, Valsmönnum í vil.

Neisti kviknaði á Aftureldingarliðinu í byrjun síðari hálfleiks, væntanlega við hálfleiksræðu Einar Andra. Barátta skein úr leikmönnum , vörnin var allt önnur en áður og sóknarleikurinn betri. Munurinn var hinsvegar mjög mikill  nánast yfir ókleifan múr að fara að jafna  leikinn.  Mosfellingum tókst þó að minnka muninn í fimm mörk, 21:15. Nær komust  þeir ekki. Valsmenn juku hraðann í sóknarleik sínum og efldu vörnina. Þeir náðu níu marka forskoti aftur. Leikurinn leystist upp í vitleysu síðustu mínúturnar enda voru úrslitin löngu ráðin.

Valur 30:24 Afturelding opna loka
60. mín. Valdimar Sigurðsson (Afturelding) fiskar víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert