Heiða stóð sig ótrúlega vel

Helena Örvarsdóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir stöðva Ramune Pekarskyte.
Helena Örvarsdóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir stöðva Ramune Pekarskyte. mbl.is/Eggert

„Við vorum staðráðnar í að mæta almennilega til leiks í dag. Við gerðum það ekki í síðasta leik og skitum algjörlega upp á bak þar,“ sagði Hanna Guðrún Stefánsdóttir sem skoraði sex marka Stjörnunnar í 24:23-sigri á Haukum í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handbolta í kvöld.

Staðan í einvígi liðanna er jöfn, 2:2, og þau mætast í oddaleik í Hafnarfirði á mánudagskvöld. Stjarnan var 15:9 yfir eftir fyrri hálfleik í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn var rosalega góður hjá okkur, og þó að við næðum ekki að halda dampi í seinni hálfleik þá dugði þetta sex marka forskot sem við náðum. Vörnin var rosalega góð í fyrri hálfleik og Heiða alveg klassagóð í markinu. Ég er ótrúlega ánægð með að við eigum tvo góða markmenn. Ef einn dettur út þá kemur annar í staðinn,“ sagði Hanna, en Heiða Ingólfsdóttir stóð í marki Stjörnunnar í fjarveru Florentinu Stanciu, sem hefur lokið keppni á þessari leiktíð eftir að hafa meiðst í þriðja leik liðanna.

Heiða getur lokað markinu

Aðspurð hvort það hefði ekki verið áfall að missa Florentinu, einn besta leikmann deildarinnar, tók Hanna undir það að vissu leyti, en benti á að Stjarnan væri í góðum málum með Heiðu Ingólfsdóttur í markinu:

„Það er alltaf sjokk að missa góðan markmann en ég hef spilað með Heiðu áður, ekki bara hér heldur líka hjá Haukum áður, og ég er ótrúlega ánægð með hana. Hún getur alveg lokað markinu. Það verður að hafa í huga að síðast spilaði hún heilan leik árið 2012. Þegar maður er með Floru í liði þá veit maður að maður fær ekkert margar mínútur í markinu, en Heiða stóð sig ótrúlega vel,“ sagði Hanna, ánægð með að hafa jafnað einvígið.

„Við fögnum í kvöld en strax í fyrramálið förum við að hugsa um næsta leik. Það er hver einasti leikur úrslitaleikur og við verðum bara að mæta til leiks núna á Ásvöllum. Það þýðir ekki að vera bara með skituna eins og í síðustu tveimur leikjum þar,“ sagði Hanna, sem sagði engar stórar breytingar hafa verið á leik Stjörnunnar í kvöld.

Af hverju ekki að halda áfram?

„Við erum bara með sama uppleggið. Í svona keppni er það bara hausinn sem skilar sigrinum. Það eru allir leikmenn jafnþreyttir en ef að hausinn er í lagi þá getur maður gert ýmislegt. Við verðum að mæta á mánudaginn og reyna að gera eins vel og við höfum gert hérna á heimavelli,“ sagði Hanna, sem í vikunni skrifaði undir nýjan samning til tveggja ára við Stjörnuna:

„Á meðan að maður hefur gaman af þessu, er í formi og ekkert að manni, af hverju ekki þá að halda áfram?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert