PSG í Final Four

Nikola Karabatic mætir í Final four.
Nikola Karabatic mætir í Final four. AFP

Franska stórliðið Paris Saint Germain er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar í handbolta, þrátt fyrir jafntefli gegn króatíska liðinu PPD Zagreb, 32:32 á heimavelli í dag.

Parísarliðið vann hins vegar fyrri viðureignina sem fram fór í Króatíu, 23:25 og fer því samtals áfram 57:55. PSG hafði þriggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 16:13 en Zagreb gafst ekki upp og þegar 12 mínútur voru til leiksloka voru gestirnir tveimur mörkum yfir, 25:27.

Króatarnir héldu undirtökunum og þegar skammt var til leiksloka var staðan 29:32 fyrir Zagreb. Heimamenn vöknuðu þá af værum blundi, skoruðu síðustu þrjú mörkin og tryggðu sér sæti í hinum eftirsótta viðburði meistaradeildarinnar, sem alla jafna er kallaður „Final Four“.

Úkraínumaðurinn Sergiy Onufryienko var markahæstur í liði PSG með 7 mörk en stórskytturnar Nikola Karabatic og Mikkel Hansen skoruðu fimm mörk hvor. Króatíski landsliðsmaðurinn Zlatko Horvat skoraði 8 mörk fyrir Zagreb.

Róbert Gunnarsson kom ekkert við sögu í leiknum fyrir PSG.

Þar með er ljóst hvaða fjögur lið mæta til leiks í Final Four helgina í Köln 28-29 maí nk. en þau eru:

Kiel frá Þýskalandi

Kielce frá Póllandi

PSG frá Frakklandi

Vesprem frá Ungverjalandi.

Íslendingar eiga þrjá fulltrúa í úrslitahelginni. Alfreð Gíslason þjálfar Kiel, Aron Pálmarsson leikur með Vesprem og Róbert Gunnarsson er leikmaður PSG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert