Selfoss knúði fram oddaleik

Kristján Kristjánsson, Fjölni
Kristján Kristjánsson, Fjölni mbl.is/ Golli

Selfoss tryggði sér í dag oddaleik í einvígi sínu gegn Fjölni um laust sæti í Olísdeild karla í handbolta á næstu leiktíð. Selfoss vann leikinn 34:31 eftir gríðarlega spennu.

Liðin voru hnífjöfn nánast allan leikinn en staðan í hálfleik var 15:15. Gríðarleg stemming var á Selfossi og húsið troðfullt af áhorfendum. Heimamenn náðu góðum spretti undir lok leiksins og tryggðu sér oddaleik en bæði liðin hafa unnið tvo leiki.

Hreinn úrslitaleikur um laust sæti í Olísdeildinni fer því fram á miðvikudaginn á heimavelli Fjölnis í Dalhúsum í Grafarvogi.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 7 og Hergeir Grímsson 4. Birkir Fannar Bragason varði 13 skot og Helgi Hlynsson var frábær í lokin en Helgi varði fimm skot.

Kristján Örn Kristjánsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu báðir 7 mörk fyrir Fjölni, Björgvin Páll Rúnarsson 6 og Brynjar Loftsson 6/4. Ingvar Guðmundsson varði 13 skot

60. mín. 34:31 Atli Kristinsson stal boltanum og kom Selfyssingum tveimur mörkum yfir. Helgi Hlynsson tók síðan rosalega sjónvarpsmarkvörslu og Atli skoraði aftur. Við erum að fara í oddaleik í Grafarvoginum á miðvikudaginn. Þar verður allt lagt undir af beggja hálfu.

59 mín. 32:31 Helgi Hlynsson kominn inn í markið hjá Selfyssingum. Byrjar á tveimur glæsilegum vörslum. Elvar Örn kemur Selfyssingum yfir.

56. mín 30:30 Þórir með frábært mark úr horninu eftir stoðsendingu frá Teiti. Þetta var í landsliðsklassa.

54. mín 29:30 Sveinn og Kristján Örn eru búnir að raða inn mörkum fyrir Fjölni í seinni hálfleik. Þeir eru báðir komnir með 7 mörk. Fjölnir er með undirtökin núna en Arnar Gunnarsson tekur leikhlé til að stilla strengina betur. Var ég búinn að minnast á það að það er brjáluð stemmning í stúkunni? Hér heyrist ekki mannsins mál.

50. mín 26:26 Sveinn Jóhannsson með tvö mörk í röð fyrir Fjölni og jafnar, 24:24. Eyvindur Hrannar fær sína aðra brottvísun en manni færri ná Selfyssingar að komast yfir með marki frá Þóri úr horninu. Sveinn jafnar aftur fyrir Fjölni, 26:26.

45. mín 23:21 Ingvar með skuggalega markvörslu fyrir Fjölni og Birkir Fannar Má ekki vera minni maður í Selfossmarkinu. Ver vel frá Kristjáni Erni. Elvar Örn Jónsson kemst framhjá Ingvari í næstu sókn Selfoss og eykur forskot heimamanna í tvö mörk.

43. mín. 22:21 Baráttan í leiknum er hreint út sagt rosaleg. Varnirnar grimmar og menn fórna sér í gólfið í alla lausa bolta. Selfyssingurinn Andri Már Sveinsson kemst upp með að taka skref með boltann og Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis trompast. Fær gult spjald og þiggur það með þökkum.

40. mín 21:21 Sveini Jóhannssyni vísað af velli með tvær mínútur. Fjölnismenn hafa yfir í brottvísunum í leiknum.

38. mín 18:19 Eyvindur Hrannar, jafnar fyrir Selfyssinga af línunni, en Kristján Örn svarar jafnharðan fyrir Fjölni.  Vallarþulurinn biður gesti ítrekað að þjappa sér í stúkunni því enn eru að bætast við áhorfendur. Húsið er smekkfullt.

31. mín 15:16 Seinni hálfleikur hafinn á Selfossi. Kristján Örn Kristjánsson skorar fyrsta markið og kemur Fjölni yfir í fyrsta sinn í leiknum. Síðasti leikur liðanna var tvíframlengdur og ef fram heldur sem horfir hér þá eru miklar líkur á því að svo verði líka í dag. Liðin eru hnífjöfn

30. mín. HÁLFLEIKUR 15:15 Hrikalega skemmtilegur handboltaleikur hérna á Selfossi. Bæði lið bjóða upp á mögnuð tilþrif en hraðinn og spennan valda líka fjölda mistaka á báða bóga. Selfyssingar áttu síðustu sókn fyrri hálfleiks en Ingvar varði boltann.

Birkir Fannar Bragason, markvörður Selfoss, hefur varið 10 skot, og Ingvar Guðmundsson, markvörður Fjölnis 10/1. Markaskorunin hefur dreifst mikið, Teitur Örn Einarsson er markahæstur Selfyssinga með 4 mörk en Brynjar Loftsson er lang markahæstur Fjölnismanna með 6/4 mörk.

26. mín 13:12 Selfoss var komið með þriggja marka forystu, 13:10, en Fjölnismenn eru ákveðnir og hafa minnkað muninn í eitt mark.

20. mín 9:8 Þetta er leikur markvarðanna þessa stundina. Ingvar Guðmundsson og Birkir Fannar Bragason með sýningu síðustu mínúturnar. Verja báðir eins og óðir menn. Ingvar kominn með 7/1 skot og Birkir 5

15. mín 8:6 VÁ! Kristján Þór Karlsson fer í hraðaupphlaup fyrir Fjölni, en Birkir Fannar með geggjaða markvörslu. Selfyssingar rjúka í sókn og Hergeir Grímsson kemur þeim tveimur mörkum yfir og glottir við tönn. Sveinn Þorgeirsson er utan vallar. Búinn að fá tvær mínútur tvisvar sinnum.

13. mín 6:6 Liðin eru mjög samstíga. Skori Selfyssingar, þá skora Fjölnismenn í næstu sókn. Geri annað liðið mistök, þá gerir hitt liðið mistök í næstu sókn. Þetta verður ekki mikið jafnara. Allt í járnum.

8. mín 5:5 Selfyssingar komust í 5:3 en Brynjar Loftsson skoraði tvö mörk í röð fyrir Fjölni og jafnaði

5. mín 3:3 Þetta byrjar með látum. Jafnt á öllum tölum. Teitur búinn að skora tvö mörk fyrir Selfoss og Ingvar búinn að verja tvö skot í marki Fjölnis. Hann er búinn að vera þeim gulu mikilvægur í einvíginu.

Það er geggjuð stemmning í stúkunni á Selfossi og hún var orðin pakkfull hálftíma fyrir leik. Liðin eru kynnt inn með ljósasýningu og miklum látum. Það stefnir í rosalegan leik hérna á Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert