Áfall fyrir Hauka og Tjörva

Tjörvi Þorgeirsson verður líklega frá keppni fram á næsta ár.
Tjörvi Þorgeirsson verður líklega frá keppni fram á næsta ár. mbl.is/Golli

Tjörvi Þorgeirsson, leikstjórnandi Hauka, mun ekki spila með liðinu í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta eftir að hann meiddist alvarlega í síðasta leiknum við ÍBV í undanúrslitunum, í Vestmannaeyjum á laugardag.

Tjörvi fór í segulómskoðun í dag og segir lækna óttast að krossband í hné hafi slitnað. Það verður endanlega ljóst á morgun en ef sú er raunin verður Tjörvi frá keppni fram á næsta ár og ljóst að um mikið áfall er að ræða fyrir hann sem og Haukaliðið í heild.

„Maður verður að vona að hann [læknirinn] hafi rangt fyrir sér,“ sagði Tjörvi sem hefur ekki meiðst alvarlega í hné áður.

„Besta útkoman væri bara að krossbandið hefði ekki skaddast, heldur liðband eða eitthvað annað þarna í hnénu. En þó að svo væri þá er tímabilið samt pottþétt búið hjá mér,“ sagði Tjörvi.

„Þetta er bara ömurlegt, það er ekki hægt að segja annað, en maður verður bara að taka þessu eins og öðru, og styðja sína menn í að klára dæmið með stæl,“ sagði Tjörvi.

Haukar mæta annað hvort Val eða Aftureldingu í úrslitaeinvíginu sem hefst í Schenker-höllinni á sunnudaginn kl. 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert