Florentina verður liðsstjóri

Ramune Pekarskyte, Haukum, og Rakel Dögg Bragadóttir, Stjörnunni, eru afar …
Ramune Pekarskyte, Haukum, og Rakel Dögg Bragadóttir, Stjörnunni, eru afar leikreyndar og hafa tekið þátt í mörgum úrslitaleikjum. Þær verða í eldlínunni með liðum sínum í oddaleik Hauka og Stjörnunnar í Schenker-höllinni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Florentina Stanciu, markvörður Stjörnunnar, verður liðsstjóri hjá Stjörnunni í kvöld þegar liðið mætir deildarmeisturum Hauka í oddaleik á Íslandsmóti kvenna í handknattleik í Schenker-höllinni á Ásvöllum. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði við mbl.is að aðrir leikmenn Stjörnuliðsins en Florentina væru klárir í úrslitaleikinn. Eftir fjóra leiki liðanna í undanúrslitum hefur hvort lið tvo vinninga. Stjarnan jafnaði metin í rimmunni með naumum sigri, 24:23, í TM-höllinni í Garðabæ á föstudagskvöldið. 

Florentina meiddist á hné í þriðju viðureign liðanna á Ásvöllum á síðasta miðvikudag. Hún hefur alls ekki jafnað sig enn. Heiða Ingólfsdóttir tók stöðu Florentinu í markinu og hefur farnast vel. 

Ekki er annað vitað en að Haukar stilli upp sínu sterkasta liði í leiknum umrædda. Ramune Pekarskyte fékk þung högg á hægra hné í annarri viðureign liðanna og hefur ekki bitið úr nálinni með það ennþá. Það mun þó ekki koma í veg fyrir að landsliðskonan taki þátt í leiknum í kvöld af fullum krafti eins og í undanförnum viðureignum liðanna. 

Sigurliðið í leik Hauka og Stjörnunnar mætir Íslandsmeisturum Gróttu í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn.  Rimman um Íslandsmeistaratitilinn hefst á sunnudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert