„Sigurhefðin og reynslan“

Heimir Óli Heimisson er hér að skora fyrir Hauka en …
Heimir Óli Heimisson er hér að skora fyrir Hauka en til varnar er Pétu Júníusson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kannski væri best fyrir hjartveika að taka með sér sprengitöflurnar ef þeir ætla að vera viðstaddir hreinan úrslitaleik Hauka og Aftureldingar um Íslandsmeistaratitilinn í Olís-deild karla í handknattkleik í Schenker-höllinni að Ásvöllum í kvöld.

Leikir liðanna hafa boðið upp á ævintýralega spennu og dramatík en framlengja hefur þurft tvo síðustu úrslitaleiki liðanna til að knýja fram úrslit.

Haukar hafa hampað Íslandsbikarnum alls tíu sinnum og eru ríkjandi Íslandsmeistarar en Afturelding hefur aðeins einu sinni orðið Íslandsmeistari en það var árið 1999. Morgunblaðið fékk Gunnar Andrésson, fyrrverandi landsliðsmann og núverandi þjálfara Gróttu, til að spá í spilin fyrir úrslitaleikinn í kvöld sem hefst klukkan 20.

,,Þetta einvígi hefur verið hreint ævintýri og leikirnir ótrúlega spennandi og skemmtilegir. Fólk hefur fengið allt fyrir peninginn og það er bara frábært að fá hreinan úrslitaleik. Það er virkilega erfitt að spá um úrslit leiksins. Til þessa hafa allir leikir unnist á útivelli en ég hallast að því að Haukarnir hafi þetta og vinni í spennuleik. Ætli við fáum ekki bara að sjá enn eina framlenginguna,“ sagði Gunnar við Morgunblaðið.

,,Mér finnst líkurnar vera aðeins meiri á Haukasigri og þar held ég að sigurhefðin og reynslan ráði miklu. Hins vegar getur allt gerst eins og berlega hefur komið í ljós í þessu einvígi. Til þess að Afturelding eigi möguleika á sigri þarf að koma framlag frá fleirum í sóknarleiknum. Pinnonen hefur borið sóknarleik liðsins uppi og hann hefur verið ótrúlega góður. Ef Mosfellingum tekst að kreista fram meira frá fleirum en honum þá eiga þeir möguleika. Ég veit að það er gríðarlegt hungur hjá leikmönnum Aftureldingar að vinna titilinn en Haukarnir eru sjóaðir í svona leikjum og ég held að heimavöllurinn og reynslan komi núna til með að vega ansi þungt,“ segir Gunnar.

,,Svo kemur vörn og markvarsla til með að skipta miklu máli. Grétar kom virkilega öflugur í Haukamarkið í síðasta leik og ég held að hann muni byrja aftur inni á í þessum leik. Það er bara frábært fyrir handboltann að fá svona leik og sjálfur er ég afar spenntur fyrir honum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert