Þrengist að Stefáni Rafni

Stefán Rafn Sigurmannsson á fullri ferð í leik með íslenska …
Stefán Rafn Sigurmannsson á fullri ferð í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Þýska handknattleiksliðið Rhein-Neckar Löwen hefur klófest vinstri hornamanninn Dejan Manaskov frá Vardar Skopje í Makedóníu. Honum er ætlað að vera Guðjóni Val Sigurðssyni til halds og trausts í vinstra horninu hjá liðinu á næstu leiktíð en Guðjón Valur kemur til liðsins í sumar frá Barcelona.

Þar með má telja að ljóst að tækifærum Stefáns Rafns Sigurmannssonar hjá Rhein-Neckar Löwen fækki verulega. Hann hefur verið annar hornamaður liðsins undanfarin ár. Þýski landsliðsmaðurinn Uwe Gensheimer sem nánast hefur einokað stöðuna í vinstra horninu hjá liðinu síðustu ár gengur til liðs við franska meistaraliðið PSG í sumar. 

Stefán Rafn, sem er 26 ára gamall í dag, er orðaður við danska úrvalsdeildarliðið Aalborg Håndbold á vefmiðlinum fimm einum í dag. Aron Kristjánsson, fyrrverandi  landsliðsþjálfari, tekur við þjálfun Aalborg Håndbold í sumar. Hann þekkir vel til Stefáns Rafns, bæði frá árum sínum með Hauka og eins hjá íslenska landsliðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert