Janus og Ramune leikmenn ársins

Janus Daði Smárason og Ramune Pekerskyte, leikmenn ársins í Olís-deild …
Janus Daði Smárason og Ramune Pekerskyte, leikmenn ársins í Olís-deild karla og kvenna. mbl.is


Janus Daði Smárason og Ramune Pekarskyte, leikmenn  Hauka, voru valin bestu leikmenn Olís-deildar karla og kvenna í kjöri meðal leikmanna og þjálfara deildanna en upplýst var um niðurstöðu kjörsins á lokahófi Handknattleikssambands Íslands sem nú stendur yfir í Gullhömrum.

Lovísa Thompson úr Gróttu og Ómar Ingi Magnússon, Val, voru valin efnilegustu leikmenn Olís-deildanna.

Ramune Pekarskyte.
Ramune Pekarskyte. mbl.is/Árni Sæberg


Þetta er annað árið í röð sem Lovísa er valin efnilegasti leikmaður Olís-deildar kvenna en hún lék stórt hlutverk í liði Íslandsmeistaranna. Ómar Ingi yfirgefur Val í sumar og leikur með Århus í Danmörku á næstu leiktíð.

Haukar voru afar sigursælir í kjörinu. Gunnar Magnússon, þjálfari Íslands- og deildarmeistara Hauka, var valinn þjálfari ársins í Olís-deild karla og Óskar Þór Ármannsson, þjálfari deildarmeistara Hauka, varð fyrir valinu sem þjálfari ársins í Olís-deild kvenna.

Giedrius Morkunas, Haukum, og Íris Björk Símonardóttir voru valdir bestu markverðir Olís-deildar karla og kvenna. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Selfossi, og Janus Daði Smárason, Haukum, þóttu skara fram úr sem sóknarmenn deildanna, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Gróttu, og Guðmundur Hólmar Helgason, Val, voru valin bestu varnarmennirnir.

Hrafnhildur Hanna og Einar Rafn Eiðsson, FH, voru markahæstu leikmenn Olís-deildanna og fengu viðurkenningar fyrir árangur sinn.

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson voru valdir dómarar ársins þriðja árið í röð en þetta er í tíunda skiptið í á jafnmörgum árum sem Anton Gylfi er annar af dómurum ársins.

Hanna Guðrún Stefánsdóttir úr Stjörnunni og Hákon Daði Styrmisson, Haukum, hlutu háttvísisverðlaun Handknattleiksdómarasambandsins.

Valur hlaut unglingabikar HSÍ. Íris Björk Símonardóttir fékk Sigríðarbikarinn þetta árið en bikarinn er gefinn af Sigríði Sigurðardóttur, fyrrverandi landsliðskonu í handknattleik og íþróttamanni ársins 1964, og fjölskyldu hennar.  Guðmundur Hólmar Helgason, Val, hlaut Valdimarsbikarinn sem gefinn er af afkomendum Valdimars Sveinbjörnssonar, sem var einn frumkvöðla handknattleiksíþróttarinnar hér á landi.

Andri Hjartar Grétarsson úr Stjörnunni var valinn besti leikmaður 1. deildar karla. Teitur Örn Einarsson, Selfossi, var valinn sá efnilegasti í deildinni. Ingvar Kristinn Guðmundsson, markvörður Fjölnis, var valinn besti markvörður 1. deildar, Andri Þór Helgason, HK, sóknarmaður ársins í sömu deild en hann var jafnframt markahæsti leikmaðurinn. Sveinn Þorgeirsson, Fjölni, var kjörinn besti varnarmaðurinn. Þjálfari ársins í 1. deild karla var kjörinn Róbert Þór Sighvatsson, þjálfari Þróttar.

Janus Daði Smárason.
Janus Daði Smárason. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert