Andri Heimir, Þórður og Daníel Þór í Hauka

Andri Heimir Friðriksson er kominn í Hauka.
Andri Heimir Friðriksson er kominn í Hauka. Heimasíða Hauka

Íslandsmeistarar Hauka í handknattleik hafa styrkt sig fyrir átökin á næsta tímabili en Andri Heimir Friðriksson, Daníel Þór Ingason og Þórður Rafn Guðmundsson skrifuðu allir undir samning við félagið í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu Hauka.

Andri Heimir, sem er fæddur árið 1989, er öflugur varnarmaður og útileikmaður, en hann kemur frá ÍBV. Hann hefur síðustu ár verið að spila mikilvæga rullu í liði Eyjamanna en hann er nú kominn í Hafnarfjörðinn. Hákon Daði Styrmisson, sem var einn besti maður Hauka, í úrslitakeppninni, er hálfbróðir hans, en hann kom einmitt frá ÍBV um áramótin.

Þórður Rafn Guðmundsson er einnig fæddur árið 1989 en óhætt er að segja að hann sé kominn á kunnuglegar slóðir. Hann hefur undanfarin tvö ár leikið með Fjellhemmer í Noregi en er kominn aftur heim og kemur til með að styrkja liðið gríðarlega.

Síðasti bitinn sem var tilkynntur í dag er svo hinn afar ungi og efnilegi Daníel Þór Ingason sem kemur frá Val. Hann er fæddur árið 1995. Hann er uppalinn í Haukum en hefur síðustu ár spilað með Val. Hann er öflug skytta og mjög öflugur liðsauki fyrir Hauka.

Haukar fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum á dögunum en liðið hafði betur gegn Aftureldingu eftir fimm leikja rimmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert