Allir stefna á sigur

Róbert Gunnarsson er að ljúka keppnisferlinum með franska meistaraliðinu PSG …
Róbert Gunnarsson er að ljúka keppnisferlinum með franska meistaraliðinu PSG sem leikur á morgun til undanúrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Ljósmynd / Foto Olimpik

„Ég býst við að öll liðin stefni á að vinna keppnina. Það hefur sýnt sig oft í gegnum tíðina að það er ekki endilega sigurstranglegasta liðið sem stendur uppi sem sigurvegari,“ sagði Róbert Gunnarsson, leikmaður franska stórliðsins PSG, í samtali við Morgunblaðið í Köln í dag spurður hvort ekki væri skýlaus krafa af hálfu forráðamanna og leikmanna PSG að vinna Meistaradeild Evrópu á sunnudaginn. PSG er dýrasta handknattleikslið sögunnar en það tekur nú þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn.

„Þetta eru tveir leikir á jafnmörgum dögum. Þar af leiðandi skiptir gamla góða dagsformið meira máli en nokkru sinni áður og eins hvort liðin komast í gegnum undanúrslitaleikina án mikilla áfalla svo sem meiðsla. En auðvitað stefnum við á sigur eins og hin liðin þrjú,“ segir Róbert enn fremur. Hann tók síðast þátt í Meistaradeildarhelginni vorið 2011 með Rhein-Neckar Löwen frá Þýskalandi og hafnaði í fjórða sæti.

PSG mætir Kielce frá Póllandi í fyrri undanúrslitaleiknum í Meistaradeildinni klukkan 13.15 á morgun í Lanxess-Arena í Köln.

Nokkrir leikmenn PSG hafa leikið nokkrum sinnum til úrslita og tekið þátt í úrslitahelginni. Má þar nefnda Thierry Omeyer markvörð og Nikola Karabatic sem var í sigurliði Barcelona á síðustu leiktíð.

„Einhverjir okkar hafa verið fastagestir í úrslithelginni síðustu árin. Auk þess þá erum við með marga reynslubolta innan okkar raða. Ég vona fyrst og fremst að við náum að gíra okkur vel upp í undanúrslitaleikinn við Kielce.  Eftir þann leik kemur framhaldið í ljós,“ sagði Róbert sem á ekki von á að taka mikið þátt í leikjum helgarinnar eftir að hafa setið á varamannabekknum meira og minna allt keppnistímabilið.

„Nei, ég geri mér ekki miklar vonir um að verða í eldlínunni en ég er tilbúinn ef þörf verður á,“ sagði Róbert og hló og benti á þjálfara sinn, Noka Serdarusic, sem stóð fyrir aftan blaðamann þegar þessi orð féllu. „Þegar maður er kominn á þennan stað í tímabilinu þá getur maður ekki hugsað mikið um sjálfan sig. Nú geri ég allt sem ég get til þess að hjálpa liðinu í síðustu leikjum þess áður en ég kveð það eftir skemmtileg ár,“ sagði Róbert en PSG á einn leik eftir í frönsku 1. deildinni eftir Meistaradeildarsprettinn um helgina. Sá leikur hefur lítil áhrif á niðurstöðu frönsku deildarkeppninnar sem PSG hefur unnið fyrir nokkrum vikum. Eftir það kveður Róbert París eftir fjögurra ára veru og flytur til Árósa þar sem atvinnumannsferillinn hófst fyrir 14 árum.

Róbert segir erfitt að meta hvort eitthvað eitt af hinum þremur liðunum sé sigurstranglegra en annað. Mikil pressa er á ungverska meistaraliðinu Veszprém sem Aron Pálmarsson leikur með. „Það er erfitt að meta þetta þar sem liðin henta hvert öðru misvel,“ segir Róbert og bendir m.a. á að PSG hafi yfirleitt gengið illa gegn Veszprém en betur á móti Kiel. Þá henti Kielce kannski betur fyrir Veszprém en sum önnur af liðunum.

PSG tapaði í úrslitum frönsku bikarkeppninnar um síðustu helgi fyrir Montpellier. Róbert  segir erfitt að meta það fyrr en eftir þessa helgi hvort tapið í bikarúrslitunum muni virkja hvetjandi á stjörnum prýtt lið PSG. „Það veit maður ekki fyrr en eftir helgina. Tapið getur virkað tvíbent á menn. Sá leikur hefur ekkert verið ræddur. Ég vona að tapið hafi þau áhrif að menn leggi allt sem þeir eiga undir til þess að vinna Meistaradeildina um helgina. Andstæðingarnir eru hins vegar gríðarsterkir og ekkert er gefið í þessum efnum,“ sagði Róbert Gunnarsson, leikmaður franska meistaraliðsins PSG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert