Ramune missir af leikjunum mikilvægu

Ramune Pekarskyte fékk heilahristing í undanúrslitarimmu Hauka og Stjörnunnar.
Ramune Pekarskyte fékk heilahristing í undanúrslitarimmu Hauka og Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Ramune Pekarskyte, nýkjörinn besti leikmaður Olís-deildar kvenna í handbolta, verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum við Frakkland og Þýskaland í undankeppni EM í næstu viku.

Ísland mætir Frakklandi í Valshöllinni að Hlíðarenda kl. 20 á miðvikudagskvöld og svo Þýskalandi ytra sunnudaginn 5. júní. Ramune verður ekki með í þessum leikjum, að því er fram kemur á vefmiðlinum Fimmeinn.is, en hún er enn að jafna sig eftir að hafa fengið heilahristing í úrslitakeppni Íslandsmótsins.

Ísland á enn von um að komast í lokakeppni EM. Liðið er með tvö stig í 7. riðli, eftir töp gegn Þýskalandi og Frakklandi síðasta haust, og einn sigur og eitt tap gegn Sviss í mars. Ísland er fyrir ofan Sviss og getur farið áfram, að minnsta kosti sem liðið með bestan árangur í 3. sæti, í undanriðlunum sjö. Efstu tvö lið hvers riðils fara beint áfram.

Þegar talað er um „besta árangur“ er átt við árangur gegn liðunum sem enda í 1. og 2. sæti hvers riðils. Úrslitin gegn neðsta liðinu telja ekki. Ekkert liðanna sjö sem sitja í 3. sæti síns riðils hefur náð í stig gegn öðru af tveimur efstu liðum síns riðils. Ef Ísland nær í stig gegn Frakklandi eða Þýskalandi er því svo sannarlega möguleiki til staðar á að komast á EM. Ísland gæti einnig komist upp fyrir Þýskaland, sem er með 4 stig, en tapaði með fimm mörkum í leik liðanna á Íslandi í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert