Erum skrefi frá sigrinum

Aron Pálmarsson leikur á morgun til úrslita í Meistaradeild Evrópu …
Aron Pálmarsson leikur á morgun til úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik með liði sínu, Veszprém. Ljósmynd/Melczer Zsolt

„Ég kemst ekki nær því að láta drauminn rætast. Nú er að bæta þriðja sigrinum í Meistaradeildinni í safnið á morgun,” sagði Aron Pálmarsson, leikmaður ungverska meistaraliðsins Veszprém, í samtali við mbl.is í Köln eftir sigur á Kiel, 31:28, eftir framlengingu í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í dag.

„Sigur í Meistaradeildinni er stærsta markmið Veszprém á keppnistímabilinu. Þegar ég skrifaði undir hjá félaginu og gekk til liðs við það þá sagðist ég vilja vinna þennan titil, leggja mitt lóð á vogarskálina. Nú erum við aðeins einu skrefi frá sigri en til þess þarf stórt skref. Við verðum að nota næsta sólarhring tæpan til þess að safna kröftum fyrir úrslitaleikinn,” sagði Aron sem skoraði fjögur mörk í undanúrslitaleiknum í dag.

Veszprém hefur aldrei unnið Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Lið félagsins komst næst því árið 2002 en tapaði þá fyrir SC Magdeburg undir stjórn Alfreð Gíslasonar í tveimur úrslitaleikjum en þá fór keppnin fram með öðrum hætti en nú þegar undanúrslita- og úrslitaleikirnir fara fram á tveimur dögum á einum keppnisstað.

„Við áttum að taka völdin í byrjun síðari hálfleiks þegar við skoruðu fimm  mörk í röð og náðum tveggja marka forskoti. En þegar andstæðingurinn er Kiel þá er aldrei hægt að slá neinu föstu eins og kom á daginn,” sagði Aron.

Innan við tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma þá var Kiel með tveggja marka forskot og virtist vera á leið í úrslitin. Annað kom á daginn og Aron og félagar í Veszprém jöfnuðu metin, 25:25, rétt áður en leiktíminn var út.

„Þrátt fyrir að á móti blési þá misstum við aldrei trúna. Hlutirnir eru fljótir að gera í handbolta, það er eitt það yndislega við þessa íþrótt sem gerir hana svo skemmtilega að það er sjaldan hægt að slá einhverju föstu fyrr en flautað er til leiksloka. Maður á aldrei að missa trúna,” sagði Aron.

„Við áttum meira eftir á tanknum þegar komið var út í framlenginguna. Vörnin okkar stóð vel fyrir sínu sem gerði að verkum að Kiel tapað boltanum nokkrum sinnum og við fengum auðveld mörk eftir hraðaupphlaup í staðinn,” sagði Aron. „Það má engu muna þegar komið í framlengingu sem tekur yfir tvisvar sinnum fimm mínútur. Hver mistök verða dýr,” sagði Aron sem var eðlilega í sjöunda himni með að komast skrefi nær þriðja sigrinum í Meistaradeild Evrópu en hann var tvisvar í sigurliði Kiel, 2010 og 2012.

Fyrir fram reiknuðu ekki margir með að Kielce myndi slá út PSG og leika til úrslita.  Aron segir að mikið sé spunnið í lið Kielce sem sé afar baráttuglatt. „Kielce er með skemmtilegt lið sem leikur góðan handbolta auk þess sem leikmenn liðsins er harðir af sér og leggja aldrei árar í bát. Það er erfitt að leika gegn Kielce en um leið mikil áskorun fyrir okkur eftir framlengdan undanúrslitaleik í dag,” sagði Aron Pálmarsson, leikmaður Veszprém, í samtali við mbl.is í Köln eftir undanúrslitaleikinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert