Við verðskulduðum sigur

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, þungt hugsi í undaúrslitaleiknum við Veszprém …
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, þungt hugsi í undaúrslitaleiknum við Veszprém í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í Köln í dag. AFP

„Við verðskuldum sigur í venjulegum leiktíma,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, eftir að lið hans tapaði, 31:28, fyrir Veszprém eftir framlengdan leik í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í Lanxess-Arena í Köln í dag.

„Þegar kom út í framlenginguna skorti okkur þrek og töpuðum fullauðveldlega að mínu mati eftir að hafa leikið lengst af framúrskarandi handbolta, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Alfreð ennfremur en Kiel mætir PSG í leiknum um þriðja sætið í Meistaradeildinni klukkan 13.15.

„Það má segja að við höfum boðið Veszprém upp á framlenginguna með því að gera örlagarík mistök á síðustu mínútu venjulegs leiktíma þegar við vorum tveimur mörkum yfir, 25:23,“ sagði Alfreð. Leikmenn Veszprém jöfnuðu metin, 25:25, og tryggðu sér framlengingu.

„Á heildina litið var um mjög góðan handboltaleik að ræða af hálfu beggja liða. Við lékum framúrskarandi vel í fyrri hálfleik þar sem varnarleikurinn var frábær og Mikael Landin var góður í markinu. Upphafskafli síðari hálfleiks reyndist okkur dýr. Þá skoruðu leikmenn Veszprém fyrstu mörkin og komust tveimur mörkum yfir. Okkur tókst að hrista þessa byrjun af okkur og ná afar góðum leik það sem eftir var síðari hálfleiks en því miður tókst ekki hjá okkur að vinna, eins og við vorum nærri því,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, um leið og hann óskaði liði Veszprém velfarnaðar í úrslitaleiknum við Vive Kielce sem hefst klukkan 16 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert