PSG hafði betur á lokasprettinum

Noka Serdarusic þjálfari PSG.
Noka Serdarusic þjálfari PSG. AFP

PSG vann Kiel í leiknum um þriðja sætið í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla í Lanxess-Arena í Köln í dag, 29:27. PSG var með fjögurra marka forskot hálfleik, 15:11. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn og komust vel frá sínu starfi í viðureign sem oft er kölluð leikur vonbrigðanna.

Það var aðeins rétt í upphafi sem viðureignin var jöfn. PSG tók völdin fljótlega. Leikmenn Kiel náðu sér lítt á strik, hvort heldur í vörn eða sókn. Munurinn var þrjú til fjögur mörk lengst af fyrri hálfleik.

Allt annað var að sjá til Kiel-liðsins í síðari hálfleik. Greinilegt var að Alfreð Gíslason þjálfari hafði náð að vekja sína menn. Vörnin var betri og sóknarleikurinn hraðari og markvissari. Kiel komst yfir í fyrsta sinn eftir rúmlega 12 mínútur í síðari hálfleik, 21:20. Kiel komst tveimur mörkum yfir, 23:21, upp úr miðjum hálfleiknum. Eftir það var viðureignin í járnum þar til á síðustu mínútunum að atriði féllu með PSG sem varð til þess að liðið vann með tveggja marka mun.

Mikkel Hansen skoraði 10 mörk, annan daginn í röð, og var markahæstur leikmanna PSG. Christian Dissinger var markahæstur hjá Kiel með sjö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert