Ætlum að koma okkur á fyrri stall

Guðjón Valur Sigurðsson í leik á EM í Póllandi.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik á EM í Póllandi. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson hlakkar til komandi leikja gegn Portúgal í umspili um sæti á HM í handbolta. Fyrri leikurinn fer fram í Laugardalshöll í dag og hefst hann klukkan 17.00.

Guðjón varð Spánarmeistari með Barcelona í vetur en liðið vann alla leiki sína í deildinni þriðja árið í röð. Hann söðlar um í sumar og gengur til liðs við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen, í annað sinn en hann lék með liðinu frá 2008–2011.

„Ég er vel stemmdur og hlakka til leikjanna,“ sagði landsliðsfyrirliðinn í samtali við mbl.is fyrir leikina mikilvægu. Ísland og Portúgal mættust tvívegis í vináttuleikjum í janúar þar sem þau unnu hvort sinn leikinn. Guðjón segir góðan stíganda hafa verið á æfingum í vikunni:

„Þetta byrjaði rólega, að fá menn til landsins og hópinn allan saman. Síðan er búinn að vera hægur en öruggur stígandi í þessu hjá okkur. Mér líst ágætlega á það hvert við erum komnir,“ sagði Guðjón en nýr landsliðsþjálfari, Geir Sveinsson, hefur reynt að vinna í flestum þáttum leiksins:

Við erum búnir að vinna bæði í vörn og sókn þar sem hraðaupphlaupin okkar hafa yfirleitt litið ágætlega út. Við fengum fimm, sex daga fyrir fyrri leikinn og það er búið ganga ágætlega.

Guðjón segir landsliðsmenn ekki staðráðna í að bæta upp fyrir Evrópumótið í Póllandi, þar sem Ísland féll úr leik eftir riðlakeppni. „Það er voðalega auðvelt að segja; við duttum út úr riðlinum, gekk illa, það er fyrirsögnin. Við spiluðum frábæran leik á móti Noregi, liðinu sem var í fjórða sæti, og svo er þetta í rauninni einn leikur sem kostar okkar allt, leikurinn á móti Hvít-Rússum. Við ætlum ekki að bæta fyrir neitt heldur ætlum við einfaldlega að koma okkur aftur á þann stall sem við vorum á. Í því erum við að vinna þessa stundina.“

Guðjón Valur eftir leik gegn Portúgal í janúar.
Guðjón Valur eftir leik gegn Portúgal í janúar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert