Ætlum okkur sigur í Portúgal

Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í Laugardalshöll í dag.
Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í Laugardalshöll í dag. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Við náðum að minnsta kosti að vinna leikinn og getum kvatt stuðningsmenn okkar í bili með sigri. Það var jákvætt,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins og besti maður liðsins í sigurleiknum á Portúgal, 26:23, í undankeppni  heimsmeistaramótsins í Laugardalshöll í dag.

„Við gerum okkur grein fyrir að fyrir að við verðum að vanda leik okkar í síðari viðureigninni ytra á fimmtudaginn, ekki síst sóknarleiknum.  Þess utan léku Portúgalar tvenns konar vörn í leiknum í dag sem við þurfum að læra betur inn fyrir síðari viðureignina.

Nú er hálfleikur eftir í þessari rimmu. Við ætlum okkur að vinna hann einnig og koma okkur áfram á heimsmeistaramótið í Frakklandi. Það er sameiginlegt markmið okkar allra í liðinu,“ sagði Björgvin Páll.

„Síðari leikurinn verður snúin enda eru leikmenn portúgalska liðsins góðir í handbolta og hafa sótt í sig veðrið. Þeir eru sjálfsöruggir og miklir töffarar.  En við förum til Portúgals til þess að vinna, ekki til þess að tapa með tveimur. Það er alveg ljóst,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins sem varði 21 skot í leiknum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert