Skemmtilegra að fara inn í sumarið með sigri

Línumaðurinn Róbert Gunnarsson er klár í slaginn fyrir leikina gegn …
Línumaðurinn Róbert Gunnarsson er klár í slaginn fyrir leikina gegn Portúgal. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

„Við erum gríðarlega vel stemmdir. Með nýjum þjálfara koma auðvitað nýjar áherslur og menn vilja náttúrulega sanna sig,“ sagði línumaðurinn Róbert Gunnarsson við mbl.is en Ísland tekur í dag á móti Portúgal í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á HM í Frakklandi.

Það er búið að vera gríðarlega gott tempó og harka á æfingum og ég held að við séum nokkuð vel undirbúnir. Þetta er virkilega skemmtilegt, það er stutt í sumarfríið og það er alltaf gaman að klára á svona leikjum,“ bætti Róbert við en landsliðið hefur nýtt undanfarna viku til æfinga fyrir leikina sem fram undan eru en línumaðurinn vill fara ánægður inn í sumarfríið:

Við viljum tryggja okkur inn á mót í Frakklandi og það er alltaf skemmtilegra að fara inn í sumarið með sigri. Við höfum prófað hitt, því miður, og það var mjög leiðinlegt. Það er bara full ferð áfram.“

Fólk virðist vera með ranghugmyndir um andstæðingana

Andstæðingarnir eru betri en margir halda að mati Róberts. Liðin mættust í tveimur æfingaleikjum fyrir EM í Póllandi í janúar og unnu þá sitt hvora viðureignina. Við erum búnir að skoða þá mikið og þeir eru búnir að bæta sig gríðarlega og eru virkilega góðir í handbolta. Það yrði engin skömm að tapa fyrir þeim en auðvitað ætlum við okkur ekki að gera það. Fólk virðist vera með ranghugmyndir um Portúgal, halda að þeir geti ekki neitt en þeir eru orðnir hörkugóðir og þetta verða gríðarlega erfiðir leikir.

Róbert hefur lítið komið við sögu með liði sínu, PSG, í vetur en segist þrátt fyrir það vera í góðu standi. „Ég er í góðu formi og hef haft góðan tíma til að æfa. Ég er kannski í betra líkamlegu standi en oft áður. Ég er mjög sáttur með mitt form og vonandi fæ ég að sýna hvað ég get,“ sagði Róbert en hann vonast eftir fullri Laugardalshöll í dag:

„Það hjálpar alltaf að fá fulla Höll og það hefur gert þessa leiki svo skemmtilega að það hefur yfirleitt verið góð stemmning í Höllinni. Það er gaman að fara inn í sumarið í góðri stemmningu. Ég vona svo sannarlega að fólk mæti. Ég hvet fólk til að mæta hvort sem það er fótbolti, handbolti eða körfubolti.

Róbert Gunnarsson í baráttunni gegn Portúgal í janúar.
Róbert Gunnarsson í baráttunni gegn Portúgal í janúar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert