Guðný Jenný til Eyja - Erla Rós framlengir

Guðný Jenný Ásmundsdóttir og Hrafnhildur Ósk Skúladóttir fagna í leik …
Guðný Jenný Ásmundsdóttir og Hrafnhildur Ósk Skúladóttir fagna í leik með Val og eru nú sameinaðar í Eyjum. mbl.is/Golli

Guðný Jenný Ásmundsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild ÍBV um að leika með liðinu auk þess sem hún kemur inn í þjálfarateymi félagsins. Þá hefur Erla Rós Sigmarsdóttir framlengt samning sinn um tvö ár. Báðar eru þær markverðir.

Erla Rós er uppalin í Eyjum og hefur leikið allan sinn feril fyrir ÍBV. Hún á að baki fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands og hefur einnig spilað tvo leiki fyrir A-landsliðið.

Guðný Jenný á að baki 48 landsleiki fyrir Ísland, en hún hefur verið að mestu frá keppni eftir barneignir. Hún fagnaði Íslandsmeistaratitli með Val fyrir tveimur árum og hefur síðan verið markmannsþjálfari hjá landsliðinu og kvennaliði Fylkis. Hún spilaði nokkra leiki með Fylki undir lok síðasta tímabils.

Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, þekkir vel til Guðnýjar enda spiluðu þær lengi með Val og segir í tilkynningu frá ÍBV að hún hafi gengið hart á eftir því að fá sinn fyrrverandi liðsfélaga til Eyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert