Danir á HM en Norðmenn vonast eftir boði

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla, getur andað léttar í bili eftir að hans lærisveinar tryggðu sér í kvöld þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Frakklandi í byrjun næsta árs. Danir unnu Austurríkismenn, 23:20, í síðari viðureign þjóðanna um keppnisréttinn í Vínarborg í kvöld. 

Þar með eru Patrekur Jóhannesson og leikmenn hans í austurríska landsliðinu úr leik í undankeppninni en þeir töpuðu fyrri leiknum einnig með átta marka mun.

Norska landsliðið er úr leik leik. Norðmenn unnu þó Slóvena í síðari leik þjóðanna í Stavangri í kvöld, 29:27. Sá sigur var of lítill eftir sex marka tap, 24:18, í fyrri leiknum.

Norskir fjölmiðlar segja í kvöld að ekki sé öll nótt úti fyrir norska landsliðið þrátt fyrir tapið. Norðmenn halda í þá von að fá boð um að taka þátt í mótinu frá Alþjóðahandknattleikssambandinu, svokallað wild card. Líkt og fyrir HM í Katar 2015 mun stjórn Alþjóðahandknattleikssambandsins bjóða einu landsliði sérstaklega á heimsmeistaramótið. Síðast hrepptu Þjóðverjar hnossið. Nú gera norskir fjölmiðlar sér vonir um að norska landsliðið detti í lukkupottinn. Stjórn Alþjóðahandknattleikssambandsins ákveður á fundi sínum í Slóvakíu í næsta mánuði hver hreppir hnossið.

Makedóníumenn unnu Tékka, 34:27, í Skopje í kvöld og verða með á HM. Þeir töpuðu með sex marka mun í Tékklandi síðasta laugardag en unnu forskot Tékka upp í kvöld og gott betur.

Svíar, Pólverjar, Rússar, Ungverjar og Hvít-Rússar hafa einnig öðlast keppnisrétt á HM í Frakklandi. Hvít-Rússar lentu í kröppum dansi gegn Lettlandi eftir tveggja marka tap í kvöld en komust áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Einn leikur er eftir í undankeppninni á milli Íslendinga og Portúgala. Sú viðureign fer fram í Porto annað kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert