„Þetta er niðurstaðan og ég er sáttur við hana“

Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. mbl.is/Golli

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, var nokkuð sáttur við riðil Íslands á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Frakklandi í janúar 2017.

Ísland lenti í b-riðli og sleppur við að mæta mörgum af bestu liðum heims.

„Ég segi það alltaf í svona dráttum að þú getur auðvitað verið með einhverjar pælingar fram og til baka um hvað hefði getað verið og eitthvað svoleiðis. Þetta er bara niðurstaðan og maður tekur henni bara eins og hún er,“ sagði Geir í samtali við mbl.is

„Það er margt jákvætt í þessu en það er líka ljóst að þetta er mjög sterkur riðill, svo ég tali nú ekki um framhaldið sem bíður okkar. A-riðillinn bíður þar með geysisterkum andstæðingi og svona fljótt á litið sýnast mér A- og B-riðlar vera eilítið sterkari en C- og D-riðlarnir.“

Strákarnir okkar eru í b-riðli.
Strákarnir okkar eru í b-riðli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarsterkir Slóvenar

Geir hefur marga fjöruna sopið, bæði sem leikmaður og þjálfari og hann veit að hlutirnir fara ekki alltaf eins og flestir halda. B-riðillinn skartar gríðarsterku liði Spánar en að öðru leyti virka andstæðingarnir nokkuð viðráðanlegir. Geir er á hinn bóginn varkár í öllum yfirlýsingum.

„Það hefur margoft sýnt sig í þessu að það er ekkert fyrirfram gefið hvernig staðan verður og hverjir standa uppi sem þeir bestu. En þetta er niðurstaðan og ég er sáttur við hana. það er alveg klárt hvert fyrsta skrefið er en það er að koma okkur í topp fjögur í riðlinum og því ofar þeim mun betra.“

„Makedónía er með okkur í riðli í forkeppni EM 2018, þannig að við munum þekkja ágætlega til þeirra þegar við mætum þeim í Frakklandi. Maður veit aldrei hvar maður hefur Túnis en Slóvenía er með mjög gott lið. Slóvenar slógu t.a.m. Spánverja úr leik í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana og svo Noreg til að komast á HM, þannig að þeir eru mjög öflugir,“ sagði Geir Sveinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert