Áskorun að fara í 1. deild

Rúnar Sigtryggsson á fréttamannafundi í gær.
Rúnar Sigtryggsson á fréttamannafundi í gær. Ljós­mynd/​Face­book-síða Bal­ingen

„Þetta er talsverð áskorun fyrir mig en áskoranir eru nauðsynlegar og það væri í raun lítið gaman að vera í þjálfun ef maður breytti ekki til öðru hvoru,“ sagði handknattleiksþjálfarinn Rúnar Sigtryggsson eftir að hann skrifaði í gær undir samning til tveggja ára við þýska efstudeildarliðið Balingen.

Rúnar hefur síðustu fjögur árin þjálfað EHV Aue í 2. deild en var leystur undan samningi í fyrradag eftir að samkomulag náðist milli félaganna um vistaskiptin en Rúnar skrifaði undir nýjan samning við Aue fyrr á þessu ári.

Rúnar sagði vistaskipti sín hafa átt sér nokkurn aðdraganda og nokkur tími hafi liðið þar til félögin náðu samkomulagi.

„Markmið okkar hjá Balingen fyrir næsta keppnistímabil er að forðast fall úr deildinni og hefja síðan smátt og smátt uppbyggingu. Staðan er kannski ekkert ósvipuð og þegar ég tók við Aue fyrir fjórum árum þegar liðið var nýkomið upp úr þriðju deild,“ sagði Rúnar.

„Það er fyrst og fremst spennandi að taka við nýju liði og vera í deild með bestu liðunum í Þýskalandi,“ sagði Rúnar ennfremur. Hann mætir á sína fyrstu æfingu með liðinu 11. júlí þegar undirbúningur hefst fyrir næsta keppnistímabil.

„Leikmannahópurinn er fastmótaður fyrir næsta keppnistímabil. Ég mun því ekki gera breytingar á honum,“ sagði Rúnar Sigtryggsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert