Ísland vann Spán í lokaleiknum

Aron Dagur Pálsson úr Gróttu var markahæstur í dag.
Aron Dagur Pálsson úr Gróttu var markahæstur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensku strákarnir í U20-landsliðinu í handbolta unnu Spán af öryggi í lokaleik sínum á æfingamóti í Sviss í dag, 30:23.

Mótið er hluti af undirbúningi íslenska liðsins fyrir EM U20-landsliða í Danmörku sem hefst í lok júlí. Ísland hafði áður unnið heimamenn í Sviss en tapað fyrir Þýskalandi í gær.

Staðan í leiknum við Spán í dag var 12:11 í hálfleik. Munurinn var tvö mörk, 22:20, þegar tíu mínútur voru eftir, en svo náði Ísland góðu forskoti og hélt því til loka.

Aron Dagur Pálsson var markahæstur liðs Íslands með 7 mörk úr 12 skotum. Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði 5 úr 11 skotum og þeir Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu 4 mörk hvor. Bernharð Anton Jónsson varði frábærlega eða 12 skot af 24 sem hann fékk á sig, og Einar Baldvin Baldvinsson varði 5 af 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert