Tap og þriðja sæti í Þýskalandi

FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur í íslenska U18 ára …
FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur í íslenska U18 ára liðinu gegn Þjóðverjum í gær. mbl.is/Golli

Landslið Íslands í handknattleik, skipað piltum 18 ára og yngri tapaði fyrir þýska landsliðinu í lokaleik sínum á æfingamóti í Lübeck í Þýskalandi í gær. 34:30. Íslenska liðið hafnaði þar með í þriðja sæti af fjórum liðum í mótinu. 

Þjóðverjar unnu alla þrjá leiki sín í mótinu og urðu í efsta sæti. Danir hlutu annað sæti og Ísraelsmenn ráku lestina. 

Leikur Íslands og Þýskalands  var jafn og skemmtilegur þótt þýska liðið hafi haft yfirhöndina mest allan tímann. Íslenska liðið náði að jafna seint í seinni hálfleik og þá virtist möguleiki vera til að ná yfirhöndinni en Þjóðverjar bitu frá sér og unnu með fjögurra marka mun, 34:30.

Mörk Íslands: Gísli Þorgeir Kristjánsson 9, Kristófer Dagur Sigurðsson 6, Bjarni Valdimarsson 6, Sveinn Jóhannsson 3, Ágúst Grétarsson 3, Arnar Guðmundsson 2, Úlfur Kjartansson 1.

Andri Scheving varði 13 skot. 

Íslenska liðið hafði áður unnið landslið Ísraels, 43:29, en tapað fyrir danska landsliðinu, 34:28.

Næst á dagskrá hjá íslenska landsliðinu er þátttaka í Evrópumótinu í Króatíu en það hefst 11. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert