Fleiri gallar en kostir við Evrópukeppnina

Íslandsmeistarar Gróttu fagna titlinum en liðið vann Stjörnuna í úrslitaeinvígi …
Íslandsmeistarar Gróttu fagna titlinum en liðið vann Stjörnuna í úrslitaeinvígi í vor mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Gróttu í handknattleik kvenna taka ekki þátt í Evrópukeppni á komandi keppnistímabili. Ekkert íslenskt kvennalið verður á meðal þátttakenda í Evrópukeppnunum í vetur en bikarmeistarar Stjörnunnar taka ekki heldur þátt.

„Þetta er spurning um peninga og tímann sem fer í þetta. Þátttaka krefst þess að lið þarf að safna peningum með fjáröflun og öðru. Leikmenn og stjórnin ákváðu í fyrra að einbeita sér að deildinni hérna heima og láta Evrópukeppni bíða betri tíma ef svo má segja. Eyða kröftunum frekar í deildina, bikarkeppnina og úrslitakeppnina hérna,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, í samtali við Morgunblaðið um ástæður þess að Íslandsmeistararnir á Seltjarnarnesi taka ekki þátt í Evrópukeppni.

Kári segir að vissulega kitli að spreyta sig í Evrópukeppni en gallarnir hafi einfaldlega verið fleiri en kostirnir þegar málið var skoðað.

„Jú, það gerir það að einhverju leyti. Fyrirhöfnin er mikil og oft fer mikill tími í að selja klósettpappír og slíkt. Síðan verða leikirnir eða ferðalögin oft dýr og ef leikirnir eru keyptir hingað heim kostar það milljónir. Auðvitað kitlar það en það var verið að vega og meta kosti og galla þegar ákvörðun var tekin og menn töldu gallana meiri en kostina.“

Ólíkt því sem þekkist í knattspyrnunni þá fylgir því enginn fjárhagslegur ábati fyrir handknattleiksfélög að taka þátt í Evrópukeppni. „Af og frá. Það er ekki króna með þessu, bara kostnaður. Okkur er raðað svo neðarlega í Evrópukeppninni, út af lítilli þátttöku og af því að landsliðinu gengur ekki nógu vel. Vegna þess fáum við mótherja sem eru staðsettir á hinum endanum á hnettinum liggur við. Það gerir þátttökuna ennþá dýrari og það er ekki eins og við séum að mæta liðum af Norðurlöndum,“ sagði Kári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert