Kattarseglarnir strandhandboltameistarar

Kattarseglarnir voru með öflugt lið í dag.
Kattarseglarnir voru með öflugt lið í dag.

Kattarseglarnir eru Íslandsmeistarar í strandhandbolta þetta árið eftir að hafa unnið lið Shake & Pizza í úrslitum í dag. Þetta er í annað sinn sem Kattarseglarnir vinna mótið og þriðja sinn sem liðið fer í úrslit.

Margir af bestu leikmönnum Olís-deildarinnar voru mættir til að keppa á mótinu í dag sem hófst klukkan níu í morgun.

Kattarseglarnir unnu lið frá Shake & Pizza í úrslitum mótsins en Kattarseglarnir voru meðal annars með Janus Daða Smárason, leikstjórnanda Hauka, og Róbert Aron Hostert, leikmann ÍBV, í sínum röðum.

Ólafur Ægir Ólafsson, Valtýr Már Hákonarson, Gunnar Malmquist, Elvar Ásgeirsson, Böðvar Páll Ásgeirsson og Arnar Freyr Ársælsson voru ásamt þeim í liðinu en allir leika þeir í Olís-deildinni og hafa gert síðustu ár.

Lið Shake & Pizza var skipað leikmönnum úr Stjörnunni að mestu. Ari Pétursson, Ari Þorgeirsson, Hrannar Bragi Eyjólfsson, Hjálmtýr Alfreðsson og Hörður Kristinn Örvarsson voru meðal leikmanna liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert