Annar sigur hjá Þóri

Þórir Hergeirsson gefur leikmönnum sínum merki.
Þórir Hergeirsson gefur leikmönnum sínum merki. AFP

Ólympíumeistarar Noregs í handknattleik kvenna undir stjórn Þóris Hergeirssonar unnu í kvöld landslið Angóla, 30:20, í þriðju umferð A-riðils handknattleikskeppninnar á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu. Norska landsliðið hafði tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda og var með átta marka forskot, 16:8, að loknum fyrri hálfleik.

Eftir tap í fyrsta leiknum í mótinu hefur norska landsliðið unnið tvo síðustu leiki sína örugglega. Í næstu umferð mæta Norðmenn landsliði Svartfjallalands sem tapaði í dag fyrir rúmenska landsliðinu, 25:21. 

Norðmenn, Brasilíumenn, Spánverjar og Angólabúar hafa fjögur stig hver eftir þrjár umferðir í A-riðli. Rúmenía hefur tvö stig og Svartfellingar eru án stiga. Spánverjar unnu í heimamenn í dag, 29:24.

Nora Mørk skoraði átta mörk fyrir norska landsliðið gegn Angóla og var markahæst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert