Sigur á Tékkum og sæti í 8-liða úrslitum

Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir markskot í leiknum við Tékka í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir markskot í leiknum við Tékka í dag. Ljósmynd/JóiG

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, leikur í 8-liða úrslitum á Evrópumótinu sem fram fer í Króatíu. Þetta varð ljóst eftir sigur á Tékkum í dag, 32:25, í lokaumferð riðlakeppninnar og jafntefli í viðureign Króata og Svía. 

Íslenska liðið hlaut fjögur stig í þremur leikjum og varð í öðru sæti í riðlinum. Króatar urðu efstir með fimm stig og Svíar höfnuðu í þriðja sæti með þrjú stig. Tékkar ráku lestina án stiga. Tékkar og Svíar leika um 9.–16. sæti mótsins. 

Íslenska liðið mætir Serbíu í átta liða úrslitum á þriðjudaginn. 

Leikurinn við Tékka í dag var jafn fyrstu mínúturnar en þá tóku íslensku strákarnir öll völd í leiknum, léku við hvern sinn fingur og voru með átta marka forskot í hálfleik, 20:12.

Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn aftur og liðin skiptust á að skora. Sigurinn var þó aldrei í hættu, lokatölur 32–25.

Mörk Íslands: Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Jóhann Kaldal Jóhannsson 4, Alexander Másson 4, Sveinn Andri Sveinsson 4, Elliði Snær Viðarsson 2, Sveinn Jóhannsson 2, Arnar Freyr Guðmundsson 2, Teitur Örn Einarsson 2, Örn Östenberg 2, Pétur Hauksson 2, Kristófer Sigurðsson 1, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1, Ágúst Emil Grétarsson 1.

Andri Scheving varði 10 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 8 skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert