Gott dagsverk í Króatíu

Úlfur Kjartansson kominn í opið færi í leiknum gegn Tékkum …
Úlfur Kjartansson kominn í opið færi í leiknum gegn Tékkum í gær. Ljósmynd/JóiG

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, leikur í 8-liða úrslitum á Evrópumótinu sem fram fer í Króatíu. Þetta varð ljóst eftir sigur á Tékkum í gær, 32:25, í lokaumferð riðlakeppninnar og jafntefli í viðureign Króata og Svía.

Íslenska liðið hlaut fjögur stig í þremur leikjum og varð í öðru sæti í riðlinum. Króatar urðu efstir með fimm stig og Svíar höfnuðu í þriðja sæti með þrjú stig. Tékkar ráku lestina án stiga. Tékkar og Svíar leika um 9.-16. sæti mótsins.

Íslenska liðið mætir Serbíu í átta liða úrslitum á morgun.

Miklir yfirburðir gegn Tékkum

Leikurinn við Tékka í gær var jafn fyrstu mínúturnar en þá tóku íslensku strákarnir öll völd í leiknum, léku við hvern sinn fingur og voru með átta marka forskot í hálfleik, 20:12. Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn aftur og liðin skiptust á að skora. Sigurinn var þó aldrei í hættu, lokatölur 32:25.

„Við eiginlega kláruðum þennan leik í fyrri hálfleik. Það var smá stress fyrstu fimm mínúturnar en eftir að við komumst yfir, þá bara kláruðum við þá,“ sagði Kristján Arason, sem þjálfar landsliðið ásamt Einari Guðmundssyni.

„Við vorum átta mörkum yfir í hálfleik og vorum að keyra vel í hraðaupphlaupin. Það var svo mjög gott að geta rúllað vel á mannskapnum og leyft öllum að spila. Við náðum að hvíla þá leikmenn sem hafa verið að spila mest í mótinu. Hinir strákarnir fengu þá sénsinn og nýttu það vel. Þetta var samt svona leikur sem var í raun búinn frekar snemma, þannig að það reyndist erfiðast að halda einbeitingu. Það var a.m.k. aldrei neitt stress í seinni hálfleik.“ Kristján er ánægður með frammistöðuna í mótinu til þessa.

„Við byrjuðum illa á móti Króatíu en þeir eru mjög sterkir. Síðan áttum við mjög góðan leik gegn Svíum. Leikurinn gegn Tékkum getur kannski ekki flokkast undir skyldusigur en strákarnir gerðu vel í að klára það verkefni,“ sagði Kristján.

Sigurinn og svo úrslitin í leik Svíþjóðar og Króatíu þýðir sjálfkrafa keppnisrétt liðsins á næsta heimsmeistaramóti og sömuleiðis á næsta Evrópumóti.

Viktor Hallgrímsson, markvörður, var valinn besti leikmaður íslenska landsliðsins gegn …
Viktor Hallgrímsson, markvörður, var valinn besti leikmaður íslenska landsliðsins gegn Tékkum. Ljósmynd/JóiG
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert