Forsetinn vill banna harpix

Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins (IHF).
Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins (IHF).

Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, vill banna notkun harpix í íþróttinni og það strax á næsta ári.

Harpixið, sem margir þekkja eflaust sem klístur, gefur leikmönnum betra grip með boltann og hefur verið eitt af því sem fylgt hefur iðkun íþróttarinnar. Moustafa vill hins vegar banna notkun þess og ástæðuna segir hann vera óþrifnaðinn sem því fylgir sem og af heilsufarsástæðum.

IHF hefur þegar hafið þróun á nýrri tegund bolta sem eiga að gera harpixið óþarft og hefur eytt í það meira en einni milljón evra. Moustafa segir að verkefnið sé komið vel á veg og um 80% klárt. Gangi áætlun hans í gegn verður harpix bannað í öllum alþjóðlegum handknattleik, jafnt í meistaraflokkum sem og hjá yngri iðkendum.

Búast má við að ákvörðunin verði mjög umdeild og meðal annars hefur Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handknattleik, tjáð sig á Twitter-síðu sinni og segir hann Moustafa meðal annars vera að „eyðileggja sportið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert