Tekur LeBron sex mánuði að verða bestur í handbolta

LeBron James.
LeBron James. AFP

Hversu langan tíma þarf körfuknattleiksmaðurinn LeBron James til þess að verða besti handknattleiksmaður í heimi? Sex mánuði segir þjálfari bandaríska landsliðsins í handknattleik en það efast danska handboltastórstjarnan Mikkel Hansen um.

Mikkel Hansen, sem farið hefur á kostum með danska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Ríó er mikill aðdáandi LeBron James en leyfir sér þó að efast um að kappinn geti orðið sá besti.

„Það er erfitt að segja nokkuð til um það,“ sagði Hansen við Washington Post á dögunum. 

„Ég dáist að LeBron James og er mikill áhugamaður um körfubolta. Útsjónarsemin sem hann hefur er aðdáunarverð og það er góð byrjun,” sagði Hansen um hugmyndina um James sem handknattleiksmann.

„Líkamlega er hann einnig frábær, en bæði hann og aðrir körfuboltamenn munu lenda í vandræðum með að skjóta og þeir munu eiga í miklum vandræðum með að skora. Þetta er erfiðara en maður heldur,“ sagði Mikkel Hansen.

Javier Garcia Cuesta er landsliðsþjálfari bandaríska landsliðsins í handknattleik er öllu jákvæðari.

„Kannski mun það taka sex mánuði áður en LeBron James verður besti handknattleiksmaður í heimi. Þetta eru auðvitað getgátur, en ef maður horfir á hann þá hefur hann allt sem þarf,“ sagði Garcia-Cuesta.

Garcia þessi hefur áhugaverðar hugmyndir um bandarískan handknattleik og vill sjá þá leikmenn sem ná ekki að komast í efstu deildir bandarísks fótbolta og körfubolta, reyna fyrir sér í handknattleik.

„Þá myndum við fá ótrúlegt lið. Þá munum við vakna af handboltadvala okkar í Bandaríkjunun og vera ánægðir,“ sagði Garica-Cuesta.

Hansen líst ágætlega á þá hugmynd.

„Við tölum oft um það. Það yrði frábært ef Bandaríkjamenn myndu leggja handboltann fyrir sig. Þeir hafa svo marga góða íþróttamenn. Þeir eru oft stórir og sterkir. Að spila á móti LeBron James í handbolta? Ég held að það sé erfitt,“ sagði Hansen.

Danir mæta Pólverjum í undanúrslitum Ólympíuleikanna í handknattleik í kvöld en leikar hefjast kl. 23:30.

Mikkel Hansen segir það erfiðara en margur heldur að skjóta …
Mikkel Hansen segir það erfiðara en margur heldur að skjóta á markið í handbolta. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert