Ólafur kominn til Stjörnunnar

Ólafur Gústafsson og Vilhjálmur Halldórsson handsala samninginn.
Ólafur Gústafsson og Vilhjálmur Halldórsson handsala samninginn. Ljósmynd/Hkd. Stjörnunnar

Handknattleiksmaðurinn Ólafur Gústafsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Stjörnuna úr Garðabæ og mun því leika með nýliðunum í Olís-deildinni næstu tvö tímabil hið minnsta.

Þar með hefur verið staðfest frétt mbl.is frá því í byrjun júní um að Ólafur hafi ákveðið að ganga til liðs við Stjörnuna. 

Ólafur hefur undanfarin ár verið í atvinnumennsku í Danmörku og Þýskalandi en hefur nú snúið aftur heim til Íslands. Ólafur er 27 ára rétthent skytta og öflugur varnarmaður sem hefur verið afar óheppinn með meiðsli undanfarin misseri.

Hann er uppalinn í FH og varð meistari með liðinu 2011. Ólafur hefur leikið 22 A-landsleiki og skorað 43 mörk.

Stjarnan hefur styrkt sig töluvert á leikmannamarkaðinum eftir að úrvalsdeildarsætið var tryggt. Garðar B. Sigurjónsson og Stefán Darri Þórsson komu frá Fram og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson snéri aftur heim úr atvinnumennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert