Brjálæði að brottrekstur hafi komið til tals

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. AFP

Dan Phillipsen, ritstjóri TV2 Sport í Danmörku, segir að það hafi verið brjálæði hjá Ulrik Wilbek að hafa rætt þann möguleika að reka Guðmund Guðmundsson úr starfi landsliðsþjálfara karlalandsliðs Danmerkur í handknattleik á miðjum Ólympíuleikum. 

Frétt mbl.is um málið í dag: Fundaði með leikmönnum án Guðmundar

„Það er brjálæði (að hafa rætt um brottrekstur á ÓL) og margir munu eflaust gagnrýna Ulrik Wilbek fyrir að vera ótrúr, en Ulrik Wilbek er yfirmaður handknattleiksmála, og hefur það verkefni á sínum höndum að landsliðið vinni,“ segir Phillipsen á vef TV2.

„Ef hann taldi sig sjá að landsliðið væri á leið fram af bjargbrún er það hans verkefni að takast á við það. En það er hægt að segja þetta séu ofsafengin viðbrögð; að þetta hafi verið í spilunum. Ég vil undirstrika það að við höfum ekki sagt að Ulrik Wilbek hafi viljað láta reka Guðmund Guðmundsson. Hann hafi nefnt það sem möguleika við leikmennina. En að komið hafi til þess er hreinlega ofsafengið, eftir aðeins þrjá leiki á mótinu. Það kallast ekki góð heimavinna að komast að því þegar svo stutt er liðið á mótið að hlutirnir séu þannig að þeir gangi einfaldlega alls ekki upp á milli þjálfarans og leikmannanna,“ sagði Philipsen enn fremur.

Hann ítrekaði einnig að TV2 væri með að minnsta kosti tvær óháðar heimildir um þetta annars óþægilega mál og segir að virkilega þurfi að fara í saumana á mögulegu samstarfi þeirra Guðmundar og Wilbeks á næstu mánuðum en HM í Frakklandi fer fram eftir um fjóra mánuði. Vert er taka fram að í viðtali við TV2 í dag sagðist Wilbek telja að allt væri í himnalagi milli hans og Guðmundar.

Phillipsen hrósaði að lokum Guðmundi að hafa, í ljósi alls þess sem skrifað er um nú, náð að gera Dani að ólympíumeisturum.

„Það er aðdáunarvert að maður með svona mikið mótlæti og óróa innan sinna raða geti orðið ólympískur meistari,“ sagði Phillipsen og bætti því við að það væri einfaldlega meistaraverk.

Hvorki landsliðsmennirnir sem um ræðir né Guðmundur sjálfur hafa viljað tjá sig við TV2 um málið.

Frétt TV2.

Ulrik Wilbek.
Ulrik Wilbek. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert