Ólympíufögnuðurinn truflaður

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik fagnar Ólympíumeistaratiltinum …
Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik fagnar Ólympíumeistaratiltinum sem danska liðið tryggði sér fyrr í þessum mánuði. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik, viðurkennir að málefni Ulriks Wilbek hafi varpað skugga á fögnuð sinn á Ólympíumeistaratitlinum sem danska liðið tryggði sér í Ríó í Brasilíu fyrr í þessum mánuði.

Fram kom í dönskum fjölmiðlum á um nýliðna helgi að Ulrik Wilbek, fyrrverandi íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, hefði rætt þann möguleika við nokkra leikmenn danska liðsins að segja Guðmundi Þórði upp störfum. Leikmönnunum leist hins vegar ekki á þá tillögu Wilbeks, sem sagði síðan upp störfum í morgun. 

„Þetta hefur ekki verið skemmtilegur tími en ég veit hins vegar ekki mikið um málið. Þetta kom mér algerlega í opna skjöldu en ég vil ekkert tjá mig frekar um þetta en það. Ég kom ekki nálægt þessari ákvörðun þó svo að ég tengist náttúrulega málinu á óbeinan hátt,“ sagði Guðmundur Þórður í samtali við TV2 í dag. 

„Faglegt samstarf mitt við Ulrik Wilbek var gott og var í fínu lagi þangað til núna. Morten Stig Christensen hringdi í mig á laugardaginn og setti mig inn í málið og við ræddum síðan saman aftur í morgun. Þar tjáði hann mér að Wilbek hefði sagt upp störfum, þannig var bein aðkoma mína að málinu,“ sagði Guðmundur Þórður enn fremur um atburðarásina undanfarna daga.

„Ég hefði gjarnan viljað njóta sigursins sem var minn stærsti sigur á ferlinum og fá að hlaða batteríin í frið og spekt. Ég hef verið ánægður með störf mín sem þjálfari danska liðsins og við höfum náð góðum árangri að mínu mati. Það kemur vel til greina að framlengja samning minn sem þjálfari danska liðsins,“ sagði Guðmundur Þórður um framhaldið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert