,,Hlynur vann alltaf kjötkörfuna“

Menn leiksins, Mindaugas Dumcius og Lárus Helgi Ólafsson markvörður Gróttu.
Menn leiksins, Mindaugas Dumcius og Lárus Helgi Ólafsson markvörður Gróttu. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Hann var heldur betur hress, markvörður Gróttumanna eftir að lið hans hafði lagt Akureyri 20:21 í Olís-deildinni í handbolta á Akureyri í kvöld. Lárus Helgi Ólafsson var langbesti maður vallarins og hann lagði grunn að góðum sigri með fantamarkvörslu lengstum í leiknum. Nítján skot, tvö varin víti, sigur og matarkarfa var uppskeran hjá Lárusi og var hann gripinn í stutt spjall eftir leik.

,,Maður biður ekki um neitt meira hérna fyrir norðan. Það er alltaf æðislegt að koma á Akureyri og hvað þá þegar maður tekur með sér tvo punkta í farteskinu heim á leið. Þetta var alveg þokkalega öruggt hjá okkur þótt við höfum misst forskotið niður þarna í lokin. Við vorum náttúrulega orðnir fjórir á móti sex en þetta var samt aldrei í neinni hættu. Það varð að gera þetta smá spennandi fyrir áhorfendur.“

Og hvernig líst svo markmanninum á tímabilið. Grótta er búin að vinna báða leiki sína, þrátt fyrir að vera að púsla saman nýju liði.

,,Það er frábært að hafa náð að landa tveimur sigrum en við erum bara sultuslakir og með báða fætur á jörðinni. Við eigum FH næst og svo Stjörnuna og það verða tveir rosalegir leikir og gífurlega mikilvægir. Við fögnum hverju einasta stigi enda ekkert gefið í þessu. Við misstum þrjá máttarstólpa úr liðinu og vorum frekar seinir að fá nýja menn inn. Ég held að við eigum eftir að slípa liðið betur saman og það mun bara koma hægt og rólega. Það sést alveg á leik okkar í dag að það er margt að vinna í. Við áttum nokkra virkilega góða kafla í sóknarleiknum og þess á milli duttum við all svakalega niður.“

En hvað telur Lárus vera lykilinn að stórleik hans í dag.

,,Já, fyrir utan það að það er alltaf frábært að koma til Akureyrar þá tel ég að það litla sem ég lærði þegar ég var í rammanum með Hlyni Morthens í Val hafi skipt öllu. Hann vann nefnilega alltaf kjötkörfuna, sem fæst fyrir að vera besti maður liðs síns, þegar hann kom norður til að spila gegn Akureyri. Það skilaði sér bara í dag“ sagði Lárus Helgi og bætti við að Akureyringar ættu að íhuga að kaupa Hlyn frá Val en þeirri hugmynd hefur iðulega skotið upp kollinum meðal norðanmanna eftir að Hlynur og Valsmenn hafa verið í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert