Eigum heima í þessari deild

Selfyssingar fóru vel af stað en máttu þola tap í …
Selfyssingar fóru vel af stað en máttu þola tap í kvöld. mbl.is/Golli

„Það var margt sem við getum verið ánægðir með í þessum leik, en við byrjuðum aðeins of seint. Við vorum frábærir í fimmtán mínútur í seinni hálfleik og sýndum að við getum hæglega spilað á móti svona liði og unnið þá,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, eftir 34:31 tap á heimavelli gegn Haukum í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.  

Þremur umferðum er nú lokið í deildinni en þetta var fyrsta tap Selfyssinga í vetur og einnig fyrsti sigur Hauka.  

„Það kemur kafli í seinni hálfleik þar sem þeir skora fimm mörkum meira en við á einhverjum tíu mínútum, mikið eftir fráköst og við erum að leka ódýrum mörkum, þannig að það féll lítið með okkur þegar við vorum komnir með allt í gang,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is eftir leik. 

„Það vantaði aðeins upp á að við sýndum okkar allra besta í fyrri hálfleik. Ég veit ekki hvort það hafi verið spenningur fyrir fyrsta heimaleiknum. Menn voru kannski æstir í að sýna sig og sáu kannski ekki alveg nógu vel í kringum sig. Okkur vantaði yfirsýnina og leiklesturinn var kannski ekki alveg nógu góður.“ 

Haukar leiddu allan fyrri hálfleikinn og staðan var 12:15 í hálfleik. Selfyssingar voru hins vegar frábærir í upphafi seinni hálfleiks. 

„Um leið og við slökuðum aðeins á þá gekk okkur betur og liðið varð eðlilegra að sjá á vellinum. En það dugði ekki til. Við hefðum nefnilega hæglega getað unnið þennan leik ef við hefðum byrjað aðeins fyrr. Við gerðum þetta spennandi í lokin og ég var ánægður með að við börðumst til loka,“ sagði Stefán og bætti við að hann væri nokkuð ánægður með byrjun liðsins í deildinni. 

„Það sem er jákvæðast í þessu er að við höfum sýnt að við eigum heima í þessari deild. Nú er það okkar að sýna það áfram og fara í næsta leik til þess að ná í næsta sigur. Það er það eina sem á að komast að hjá mönnum núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert