Dramatískt jafntefli í Mýrinni

Úr leik Stjörnunnar og Gróttu í dag.
Úr leik Stjörnunnar og Gróttu í dag. mbl.is/Ófeigur

Grótta er áfram á toppnum í Olísdeild karla í handbolta. Grótta mætti Stjörnunni í Garðabæ og eftir hörkuleik skiptu liðin með sér stigunum. Lokatölur urðu 21:21 og Grótta hefur nú sjö stig á toppi deildarinnar. Stjarnan hefur sex stig í þriðja sæti.

Fyrri hálfleikur var nokkuð sveiflukenndur. Grótta skoraði fyrstu tvö mörkin en þá kom góður kafli heimamanna sem komust mest þremur mörkum yfir í stöðunni 8:5. Þá hrundi leikur Garðbæinga og gestirnir gengu á lagið.

Grótta skoraði sjö mörk gegn tveimur og komst í 12:10 en línumaðurinn stæðilegi, Garðar Benedikt Sigurjónsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks af miklu harðfylgi og minnkaði muninn í 12:11.

Seinni hálfleikur var mjög sveiflukenndur eins og sá fyrri. Stjarnan virtist vera að klára dæmið í stöðunni 19:16 en aftur glopruðu heimamenn niður góðri stöðu. Grótta skoraði fimm mörk í röð og skyndilega voru það gestirnir sem höfðu pálmann í höndunum.

Lokakaflinn var vægast sagt spennandi. Júlíus Þórir Stefánsson kom Gróttu í 21:19 þegar tæpar fimm mínútur voru eftir og það reyndist síðasta mark Gróttu í leiknum. Stjarnan skoraði síðustu tvö mörkin og tryggði sér jafntefli. Það var hornamaðurinn Hjálmtýr Alfreðsson sem skoraði jöfnunarmarkið u.þ.b. 20 sekúndum fyrir leikslok.

Maður leiksins var markvörður Stjörnunnar, Sveinbjörn Pétursson. Sveinbjörn varði 19 skot en flest skotin voru úr algjörum dauðafærum Gróttumanna, sem naga sig eflaust í handabökin.

Stjarnan 21:21 Grótta opna loka
60. mín. Hjálmtýr Alfreðsson (Stjarnan) skoraði mark Frír í horninu og jafnar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert