„Ég hef engar áhyggjur“

Kári Garðarsson.
Kári Garðarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var svekktur eftir 29:26 tap gegn Stjörnunni í Olís-deild kvenna í dag. Hann var sérstaklega ósáttur við fyrri hálfleikinn og hversu mörg mörk Grótta fékk á sig.

„Við fengum 17 mörk á okkur í fyrri hálfleik og vorum fimm mörkum undir, það er stór biti að kyngja. Við erum komnar sjö mörkum undir á tímabili en stelpurnar sýna karakter og komast aftur inn í leikinn.“

„Þetta var gloppóttur leikur, það komu kaflar sem voru góðir og svo kaflar sem voru arfaslakir, við verðum að vinna í þessu góða og koma í veg fyrir þetta lélega.“

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Íris Björk Símónardóttir leika ekki með Gróttu í ár en þær voru með betri leikmönnum deildarinnar á síðustu leiktið. Kári hefur ekki áhyggjur af stöðu mála, þrátt fyrir þeirra fjarveru.

„Við erum að hugsa sem minnst um það og hugsa frekar að við erum með fínan hóp í dag. Liðið er mikið breytt og það tekur tíma að fínpússa allt. Ég hef engar áhyggjur en þetta gæti tekið smá tíma.“

Austie Kazlauskaite spilaði sinn fyrsta leik fyrir Gróttu í dag en hún er markvörður frá Litháen. Kári var nokkuð ánægður með hennar innkomu og hrósaði Selmu Þóru Jóhannsdóttur jafnframt en hún byrjaði í markinu.

„Hún varði nokkra ágæta bolta en hún kom til okkar á þriðjudaginn og er að venjast íslenskum aðstæðum og íslenska boltanum og ég hef trú á að hún muni vaxa hjá okkur. Selma var líka fín í fyrri hálfleik, hún varði einhverja níu bolta en vörnin var ekki að hjálpa henni mikið en mér líst vel á Ástu, vinkonu mína frá Litháen.“

„Fyrst og fremst þurfum við að lengja góðu kaflana, það er eitthvað sem þjálfarar segja og vita síðan ekkert hvað þeir eru að tala um,“ sagði Kári að lokum, léttur á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert