Hefði tekið þessa stöðu fyrir mót

Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu.
Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkur líður eins og við höfum tapað stigi hérna í dag. Við fórum afskaplega illa með færin okkar, einn á móti einum. Það fór bara með leikinn okkar,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu eftir 21:21 jafntefli liðsins gegn Stjörnunni í fjórðu umferð Olísdeildar karla í handbolta.

„Við áttum í smá brasi sóknarlega nánast allan tímann. Við vorum líka alltof lengi að koma okkur til baka í vörnina og létum þá skora of mikið í bakið á okkur. Ég er ósáttur við sóknarleikinn í dag en það vantaði samt ekki að við komum okkur í helling af dauðafærum.“

Grótta situr í efsta sæti Olísdeildar með sjö stig að loknum fjórum umferðum. Gunnar er ánægður með spilamennskuna hjá sínu liði.

„Ég hefði alltaf tekið þessari stöðu fyrir mót. Við erum sáttir við okkar stöðu, þó að við séum ósáttir við þetta tapaða stig í dag. Nú er bara að halda okkar siglingu áfram.“

Einar Jónsson var mjög ósáttur við dóma leiksins og þótti halla á Stjörnuna. Gunnar er ekki alveg á sömu línu og kollegi hans hjá Garðabæjarliðinu.

„Mér fannst þeir bara dæma þokkalega. Við áttum líka að fá brottvísanir og vítaköst, sérstaklega undir lok leiksins þegar það er brotið á Nökkva [Dan Elliðasyni]. Vandamálið í þessum leik, liggur ekki hjá dómaraparinu,“ sagði Gunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert