„Skita á góðri íslensku“

Haraldur Þorvarðarson þjálfar Fylki í dag.
Haraldur Þorvarðarson þjálfar Fylki í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fylkir tapaði með fimmtán marka mun gegn ÍBV í Eyjum í dag, 33:18, leikurinn var í 3. umferð Olís-deildar kvenna þar sem Fylkir er með núll stig eftir þrjár umferðir. Jafnræði var í byrjun leiks en þegar ÍBV gaf í náðu þær að skilja gestina eftir með sárt ennið. Manna ósáttastur var líklega Haraldur Þorvarðarson, þjálfari Fylkis.

„Ég held að enginn búist við fimmtán marka tapi, þetta var ansi hart og mikill skellur fyrir okkur,“ sagði Halli eftir leik.

ÍBV stakk af eftir 10 mínútna leik, hvað gerist þar hjá Fylki?

„Við gerum okkur sek um mikið af mistökum á stuttum tíma og þær byggja upp þetta forskot á engum tíma. Þar með er leikurinn bara farinn. Í hálfleik var leikurinn bara búinn í rauninni, við náðum aðeins að minnka þetta en eins og ég segi þá kláraðist leikurinn í fyrri hálfleik.“

3 leikir búnir af tímabilinu hjá Fylki og þær hafa tapað öllum þremur. Var þetta sísti leikurinn?

„Já klárlega, við vorum inni í báðum hinum leikjunum en þetta var á góðri íslensku skita.“

Halli og Jóhannes Lange voru mikið að spjalla við dómarana í leiknum, voru þeir óánægðir með störf þeirra?

„Ég ætla ekki að væla yfir dómgæslu þegar ég er nýbúinn að tapa með fimmtán mörkum, þetta voru bara nokkur atriði, það er oftast svoleiðis.“

Það virtist vanta alla baráttu í Fylkisliðið í dag, er Haraldur sammála því?

„Ég er algjörlega sammála því, mér fannst skrýtið hvernig leikmenn mættu til leiks. Auðvitað vantar aðeins í liðið en þá einmitt eiga hinir að reyna að nýta sér það sem mér fannst við ekki gera.“

Fylkir á Fram í næsta leik, býst Halli við því að þetta lagist fyrir þann leik?

„Ég ætla rétt að vona það. Fram er frábært lið, ég þekki það lið ágætlega og það þarf heldur betur að vinna vel ef við ætlum að eiga möguleika á móti sterku Fram liði,“ sagði Halli að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert