„Það eru svakalega margir leikmenn að spila vel“

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

ÍBV sigraði Fylki með fimmtán marka mun 33:18 í dag en fáir bjuggust við því að leikurinn yrði svona ójafn. Liðin voru jöfn í upphafi leiks áður en ÍBV stakk af og Fylkir átti ekki séns lengur. Hrafnhildur Ósk Skúladóttir var mjög ánægð með sigurinn eftir leik.

„Ég er mjög ánægð með það, þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur. Við áttum Fylki núna og eigum svo Selfoss á heimavelli eftir viku, þannig að þetta eru svona fjögurra stiga leikir,“ sagði Hrafnhildur eftir leikinn í dag.

„Það eru svakalega margir leikmenn að spila vel, við söknuðum margra leikmanna í síðasta leik gegn Val. Uppleggið var að fá alla með í dag, það var algjörlega þannig. Mjög margir leikmenn mjög góðir í dag,“ sagði Hrafnhildur þegar hún var spurð hvað hún væri ánægðust með eftir leik.

Það var jafnræði í leiknum í upphafi og virtist stefna í hörkuleik, síðan stingur ÍBV gjörsamlega af.

„Markvarslan er örugglega hátt í 60% í þessum leik, alveg frábær. Vörnin var líka að standa gríðarlega vel, það skipti mestu máli.“

Karólína Lárudóttir kemur virkilega vel inn í lið ÍBV en hún flutti til Eyja ásamt tveimur öðrum leikmönnum fyrir tímabilið. Hvað gefur hún liðinu?

„Hún er alltaf ógeðslega góð þegar Óliver er að horfa,“ sagði Hrafnhildur og beindi orðunum að Óliver Magnússyni, blaðamanni

<a href="https://cas.mbl.is/owa/sport@mbl.is/redir.aspx?C=ERO6UwdDJUWcLBDf9DuLh3FMlkoR6tMItUXpIcuWJzglYoWrHD_xZnFSUq7WMOhr3LawNGNJfxQ.&amp;URL=http%3a%2f%2fFimmeinn.is" target="_blank">Fimmeinn.is</a>

.

„Hún er náttúrlega frábær leikmaður, hún er yfirleitt svakalega nýtin. Nýtir sín færi mjög vel, hún fékk enga bolta í síðasta leik. Þetta snýst mikið um að ná að skapa færi fyrir hana eins og við náðum að gera í dag.“

„Það skiptir engu máli hvor þeirra byrjar“

Erla Rós Sigmarsdóttir og Guðný Jenný Ásmundsdóttir hafa deilt markvarðarstöðunni vel á milli sín í fyrstu leikjunum, er ÍBV með það gott markvarðarpar að það skiptir ekki máli hver spilar?

„Það skiptir engu máli hvor þeirra byrjar, þær eru báðar búnar að vera hrikalega góðar á æfingum í vikunni. Ég hafði engar áhyggjur af þessu, ég vil hafa þær báðar í góðri leikæfingu og vil að þær spili báðar. Jenný er búin að vera í Fylki í tvö ár og þekkir þessar stelpur út og inn og það var alltaf ákveðið að hún myndi byrja á móti Fylki.“

Sandra Dís Sigurðardóttir var að spila virkilega vel í dag í fjarveru Drífu Þorvaldsdóttur sem hefur verið mikið frá. Veit Hrafnhildur hvenær hún kemur til baka?

„Það gæti verið eftir 3 vikur, gæti verið eftir 3 mánuði. Við vitum bara ekkert með hana, það var verið að rétta á henni grindina um daginn. Það var búið að rétta hana áður en hún fór til baka, ef hún heldur áfram að vera skökk á þetta eftir að taka einhvern tíma. Hún er komin með nárameiðsli og annað í kjölfarið af þessu.“

„Sandra kemur frábærlega inn í dag, svo erum við komin með Örnu Þyrí á láni frá Fram sem gefur manni ýmsa möguleika. Þá getum við hvílt Ester og hvílt Söndru, þá vantaði okkur líka upp á breiddina,“ sagði Hrafnhildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert