„Þeir réðu bara ekkert við leikinn“

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar var ekki sáttur í leikslok eftir 21:21 jafntefli liðsins gegn Gróttu í Olísdeildinni í handbolta. Einar var sérlega óánægður með dómaraparið Bjarna Viggósson og Jón Karl Björnsson.

„Þeir réðu bara ekkert við leikinn, það er ósköp einfalt. Ég bara skil ekki línuna í þessu. Við erum reknir út af trekk í trekk og vítaköst dæmd en svo er ekkert dæmt hinumegin á vellinum. Ég er bara ekki að átta mig á þessu. Eigum við ekki bara að segja að dómararnir hafi verið jafn lélegir og við vorum sóknarlega?“

Stjarnan komst tvívegis í góða stöðu í leiknum en glopraði niður forskoti á skömmum tíma í bæði skiptin.

„Það er einföld skýring á því og hún er sú að við lendum einum færri. Tvisvar í leiknum erum við búnir að koma þessu upp í þriggja marka forystu en svo töpum við bara köflunum sem við erum einum færri, mjög illa,“ sagði Einar.

„Við eigum talsvert í land sóknarlega. Menn eru að koma inn eftir meiðsli og svo erum við að missa menn í meiðsli. Ólafur Gústafsson snéri sig á ökkla í vikunni og við vissum alveg að sóknarleikurinn okkar yrði aðeins á eftir. Vörnin er hins vegar góð og Bubbi [Sveinbjörn Pétursson] algjörlega stórkostlegur í markinu. Við getum að mörgu leyti þakkað honum fyrir þetta stig í dag.“

Stjarnan er í þriðja sæti deildarinnar að loknum fjórum umferðum og þjálfarinn kvartar ekki yfir þeirri stöðu.

„Ég held að við getum nú alveg verið sáttir með það, sérstaklega þar sem ég tel okkur eiga mikið inni. Við höldum bara áfram að vinna í okkar málum en erum ánægðir með stöðuna eins og hún er í dag,“ sagði Einar Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert