Akureyri án tveggja helstu markvarða sinna

Tomas Olason, aðalmarkvörður Akureyrar, er meiddur.
Tomas Olason, aðalmarkvörður Akureyrar, er meiddur. mbl.is/Eva Björk

Akureyri Handboltafélag hefur byrjað leiktíðina í Olís-deild karla í handbolta illa og nú eru tveir bestu markverðir liðsins báðir úr leik vegna meiðsla.

Akureyringar sitja á botni deildarinnar, einir án stiga, eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Þeir mæta Selfossi á laugardaginn en verða án aðalmarkvarðar síns, Tomasar Olasonar, sem og varamarkvarðarins Bernharðs Antons Jónssonar.

Tomas er meiddur í hné og í gærkvöldi greindi Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyringa, frá því í Sportþættinum á Suðurland FM að Bernharð Anton hefði einnig meiðst. Sagði Sverre Bernharð hafa meiðst í leik með 2. flokki um helgina og að „langt gæti verið“ í að hann snúi aftur til keppni.

„Þetta er að verða svolítið erfitt, en þeim mun meiri áskorun fyrir okkur,“ sagði Sverre, sem mun væntanlega treysta á hinn tvítuga Arnar Þór Fylkisson á Selfossi á laugardaginn. Arnar Þór kom inn í leikmannahópinn síðasta fimmtudag þegar Akureyri tapaði fyrir Aftureldingu, en hefur verið markvörður ungmennaliðs Akureyrar í 1. deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert