Eigum langt í land ennþá

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er ánægðastur með svörunina og þá sérstaklega varnarlega. Við erum virkilega flottir í dag og svöruðum síðasta leik," sagði Arnnar Pétursson, þjálfari ÍBV, eftir sjö marka sigur á heimavelli á Stjörnunni í Olís-deild karla í handknattleik, 30:23.

Hann var þá ánægður með Sindra Haraldsson og sagði hann hafa verið skynsaman í leiknum. „Sindri er mjög vel gefinn drengur og flottur í alla staði var skynsamur í dag. Hann var það ekki í síðasta leik og okkur munar um Sindra þegar við erum að glíma við svona mikið af meiðslum.“

Eyjamenn sýndu klárlega sitt rétta andlit eftir dapran seinni hálfleik gegn FH-ingum um helgina. „Leikurinn gegn FH var frábær í 20 mínútur, stórkostlegur handbolti hjá okkur í alla staði. Við missum þá Sindra út og Maggi meiðist þó svo að hann spilaði allan leikinn. Þá vorum við í bullandi vandræðum varnarlega og töpuðum sannfærandi fyrir góðu FH-liði. Í dag vildum við svara fyrir það og gerðum það.“

ÍBV byrjaði leikinn við Stjörnuna af miklum krafti og voru sjö mörkum yfir í hálfleik, þá var sigurinn nánast í höfn.

„Fyrri hálfleikur var frábær hjá okkur og hefði ég viljað halda sama dampi í seinni hálfleiknum en Stjarnan er með gott lið og voru taplausir fram að þessum leik. Þeir eru skynsamir og með flottan þjálfara, það var alveg viðbúið að þeir kæmu aðeins til baka,“ sagði Arnar en gestirnir virtust ætla að koma til baka í upphafi seinni áður en að það hallaði undan fæti hjá þeim.

„Við eigum langt í land ennþá og eigum eftir að laga fullt af hlutum, það er engin spurning. Ég er gríðarlega stoltur af þessari frammistöðu í kvöld, við erum að spila á mörgum ungum strákum sem eru að koma inná og skora sín fyrstu mörk. Ég er mjög stoltur af því að við getum sýnt þessa frammistöðu með alla þessa peyja okkar.“

Það vantaði þrjá leikmenn hjá ÍBV sem margir töldu vera lykilmenn fyrir tímabilið. Er Arnar ánægður með að yngri leikmenn stígi upp og styrki hópinn í fjarveru þessara manna?

„Ég vil nú meina að það vanti fjóra, það vantar Griffin líka. Hann skoraði 4 mörk í fyrsta leik,“ sagði Arnar hlæjandi en hann var að tala um Daníel Örn Griffin, leikmann fæddan rétt fyrir aldamótin sem kom vel inn í fyrsta leik sinn gegn Akureyri fyrr á tímabilinu.

„Þessir strákar hafa unnið titla og gert flotta hluti í yngri flokkum lengi vel. Þeirra tími er að koma og við viljum hafa þetta svona. Við viljum gefa þeim tækifæri með hinum reynsluboltunum sem við erum með. Við erum með gott lið og erum hægt og rólega að spila okkur í gang, við þurfum lengri tíma í það. Við eigum eftir að rekast á veggi áður en við verðum fullkomlega sáttir.“

Elliði Snær Viðarsson spilaði frábærlega í kvöld. Hann lék fyrir framan vörnina og var gríðarlega mikilvægur í varnarleiknum. Hann er ekki ósvipaðu Magnúsi Stefánssyni sem spilar þessa stöðu alla jafna hjá ÍBV.

„Ég held að Elliði sé með lengri faðm en Maggi sem er ótrúlegt. Hann hentar því mjög vel inn í þetta. Hann er gæðadrengur sem að les leikinn vel og fittar fullkomlega inn í þetta fyrir framan og í rauninni í hvaða vörn sem er. Hann er frábær leikmaður," sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert