Ekki ósáttur þrátt fyrir tap

Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir á auðum sjó. Hún skoraði eitt mark …
Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir á auðum sjó. Hún skoraði eitt mark gegn Fram í kvöld og hér er það í uppsiglingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ekki ósáttur við mitt lið þrátt fyrir átta marka tap. Leikmenn börðust og reyndu að leggja sig fram. Heilt yfir var leikurinn nokkuð góður,“ sagði Haraldur Þorvarðarson, þjálfari Fylkis, eftir átta marka tap fyrir Fram, 28:20, í Olís-deild kvenna í handknattleik í Fylkishöllinni í kvöld.  

„Við lékum fantagóð vörn nær allan fyrri hálfleikinn en því miður þá duttu inn tvö til þrjú mörk á síðustu mínútunni sem gerði að verkum að Fram náði fjögurra marka forskoti sem liðinu tókst að bæta við á upphafskafla síðari hálfleiks. Þar með var róðurinn orðinn þungur hjá okkur, sex til sjö mörkum undir þótt enn væri mikið eftir af leiknum,“ sagði Haraldur.

Haraldur segir að varnarleikur Fylkisliðsins hafi verið viðundandi í þremur af fjórum fyrstu leikjunum. „Sóknarleikurinn hefur verið stirður á köflum en mér finnst ég sjá batamerki á honum. Einn af leikjunum fjórum til þess í deildinni er hinsvegar best gleymdur, gegn ÍBV um síðustu helgi,“ sagði þjálfarinn sem enn bíður eftir fyrsta eða fyrstu stigum Fylkis í deildinni. Liðið situr á botninum stigalaust.

„Ég er viss um að það er ekki  langt í fyrstu stigin hjá okkur. Hver leikur í þessari deild verður erfiður fyrir okkur, lið sem kemur inn í deildina í áttunda sæti af átta liðum. Í þessari stöðu felast líka áskoranir sem gaman er fást við fyrir leikmennina og mig. Verkefnið er krefjandi en  það er engan bilbug á okkur að finna,“ sagði Haraldur Þorvarðarson, þjálfari kvennaliðs Fylkis í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert