„Sorglegt að fá tvær mínútur í lokin“

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyringa.
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyringa. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyringa í Olís-deild karla í handknattleik, var svekktur eftir 29:28 tap gegn Fram í 7. umferð deildarinnar í dag.

Akureyri er í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig en eini sigurinn kom gegn Selfyssingum í byrjun október.

„Spilamennskan var í rauninni ekki nægilega góð sérstaklega í fyrri hálfleik en allt annað lið svo sem í seinni. Við vorum klaufar og það var mikið undir og við vorum sjálfum okkur verstir á köflum en það hefði verið flott fyrir strákana að fá smá verðlaun fyrir allt erfiðið en það hefði allt þurft að ganga upp í lokin,“ sagði Sverre við mbl.is

Þrátt fyrir að allt hafi ekki gengið upp eins og í sögu þá segir Sverre að þeir eigi meira inni.

„Strákarnir vinna vel og gera vel og vilja mikið. Við erum í ákveðnu mótlæti og þetta er hluti af því, þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við töpum í svona jöfnum leikjum. Það vantar að stíga þetta skref og við eigum það inni, það mun koma.“

„Við viljum frekar spila ömurlega og fá stigin en þetta fer að koma. Það var sorglegt að fá tvær mínútur í lokin og fá sex á móti fjórum og geta keyrt aðeins öðruvísi á þá en við gerðum. Sénsinn var þarna en hann varði, ég veit ekki, tíminn var að líða undir lok en þetta er bara svekkjandi.“

Arnar Birkir Hálfdánarson var rekinn af velli þegar fjórar sekúndur voru eftir fyrir að kasta boltanum upp í stúku.

„Það skiptir mig svo sem engu máli, þetta var jákvætt fyrir okkur, en við missum mann út á móti svo þetta jafnaðist út. Ég hefði viljað fá skot á markið fyrr eða þegar fyrsta sendingin kom en svona er þetta. Við töpuðum leiknum, það eru vonbrigði,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert