Erfið byrjun í Meistaradeild Evrópu

Rut Jónsdóttir í leik með Midtjylland.
Rut Jónsdóttir í leik með Midtjylland. Ljósmynd/heimasíða Midtjylland

Meistaradeild Evrópu í handbolta kvenna hófst um helgina, en þrír íslenskir leikmenn voru í eldlínunni með liðum sínum

Rut Jónsdóttir og félagar hennar hjá Midtjylland fengu verðugt verkefni í fyrstu umferð riðlakeppninnar þegar liðið mætti ungverska liðinu Györi sem fór alla leið í úrslit keppninnar á síðustu leiktið. Györi tapaði fyrir rúmenska liðinu CSM Búkarest í úrslitaleiknum. Midtjylland mætti ofjörlum sínum og Györi fór með 12 marka sigur af hólmi, en lokatölur í leiknum urðu 31:19 Györi í vil.

Erfiðir riðlar hjá Íslendingunum

Midtjylland er í erfiðum riðli í keppninni í ár, en auk Györi eru ríkjandi meistarar, CSM Búkarest, í C-riðli keppninnar ásamt rússneska liðinu Rostov-Don.

Rut var einn af ljósu punktunum í liði Midtjylland, en hún var næstmarkahæsti leikmaður liðsins með fjögur mörk.

Birna Berg Haraldsdóttir var líkt og Rut næstmarkahæst hjá liði sínu Glassverket með fjögur mörk þegar liðið tapaði fyrir þýska liðinu Thüringer HC, 24:16, en liðin leika í A-riðli keppninnar. Auk Glassverket og Thüringer HC eru svartfellsku meistararnir Buducnost og franska liðið Metz Handball í A-riðlinum

Hildigunnur næst því að sigra

Buducnost bar sigur úr býtum í Meistaradeild Evrópu árið 2015, en liðið hefur orðið tvöfaldur meistari í Svartfjallalandi tíu ár í röð.

Hildigunnur Einarsdóttir skoraði síðan eitt mark fyrir Leipzig sem laut í lægra haldi fyrir ríkjandi rússnesku meisturunum Astrahanochka. Lokatölur í leiknum urðu 27:24 fyrir Astrahanochka.

Leipzig og Astrahanochka eru í B-riðli keppninnar með makedónska meistaraliðinu HC Vardar sem varð í þriðja sæti í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. Þá er ungverska liðið FTC-Rail Cargo Hungaria einnig í B-riðli keppninnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert