Ég sá strax mikla hæfileika í stráknum

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson gegn Akureyri um helgina.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson gegn Akureyri um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson lét mikið að sér kveða í liði Fram þegar liðið bar sigurorð af Akureyri í Olísdeildinni um nýliðna helgi. Hann er sá leikmaður sem Morgunblaðið kýs að fjalla um eftir 7. umferð deildarinnar.

,,Þorsteinn er ungur strákur sem er að taka sín fyrstu skref í meistaraflokknum. Hann fékk ekki mörg tækifæri á síðustu leiktíð en var einn af bestu leikmönnum 2. flokksins. Ég sá strax mikla hæfileika í honum. Hann skilur leikinn vel og gefur sig allan í leikina,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Framara, við Morgunblaðið þegar hann inntur álits á lærisveini sínum.

Þorsteinn Gauti, sem er 21 árs gamall, skoraði 8 mörk og var markahæstur Framaranna í eins marks sigrinum á Akureyringum. Hann hefur skorað samtals 41 mark í leikjunum sjö og er næstmarkahæsti leikmaður Fram í deildinni á tímabilinu með 41 mark. Á síðustu leiktíð skoraði hann 5 mörk í 16 leikjum með Safamýrarliðinu.

,,Þorsteinn hefur staðið sig afar vel í þessum fyrstu leikjum okkar, bæði í sókn og vörn. Ég hef verið mjög ánægður með hann eins og alla mína drengi í liðinu,“ segir Guðmundur Helgi, sem tók við þjálfun liðsins fyrir tímabilið. Framarar misstu marga leikmenn úr röðum sínum fyrir tímabilið og margir spáðu því að stigasöfnun þeirra bláklæddu í vetur yrði rýr en ungt lið Framara hefur staðið sig mjög vel og er í sjötta sæti deildarinnar með 7 stig.

Nánar er rætt við Guðmund Helga um lærisvein sinn, Þorstein Gauta Hjálmarsson, í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert